Kannski er pósturinn svangur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Um bókina:

Bókin geymir 36 sögur, þar sem Einar Már leikur sér með samband bókmennta og raunveruleikans og beitir til þess ýmsum brögðum frásagnarlistarinnar. Efnið er afar fjölskrúðugt og margar sögurnar eru byggðar á raunverulegum atburðum þar sem við sögu koma þekktar persónur úr þjóðlífinu.

Úr Kannski er pósturinn svangur:

Grónar götur

Þá bjó ég við Lokastíginn en hafði vinnuaðstöðu við Grettisgötuna.
 Lokastígurinn er lítil gata, í miðri borg en undarlega falin.
 Ég ímyndaði mér stundum að sólin væri lítill bolti. Hún valt niður götuna. Litlir krakkar hentu henni á milli sín.
 Svo fór að rigna. Þá stóð ég við gluggann og hugsaði: Svona verður veröldin daginn eftir heimsendi.
 Ég leigði tvö herbergi í kjallara við Grettisgötuna. Leigan var lág, staðurinn góður. Ég gekk umhverfis húsið um dyr á hárri trégirðingu, opnaði útidyrnar og stóð á ganginum.
 Inn af honum voru herbergin tvö og klósett. Ég vann í öðru herberginu. Þar var gamalt fermingarskrifborð, tölva sem nú væri álitin forngripur og bækur. Í hinu herberginu geymdi ég kassa sem ekki komust fyrir á heimilinu. Á borðplötu var kaffivél.
 Nú er það kunnara en frá þurfi að segja hve náið samband er á milli kaffidrykkju og ritstarfa. Í Mannkynssögu Ólafs Hanssonar segir í yfirliti um menningu Frakka: Balzac var mikill rithöfundur. Hann dó úr kaffieitrun.
 Margir hafa hent gaman að þessari sagnfræði en hún er ekkert verri en hver önnur.
 Mörgum árum fyrr sótti ég tíma í sagnfræði hjá Ólafi Hanssyni. Á skrifstofu hans var ekki mikið um þykkar fræðibækur en hillurnar fullar af pappírskiljum, aðallega leynilögreglusögum. Fræðiritin geymdi hann inni hjá sér.
 Ef ég hóf störf á morgnana fór ég heim í hádeginu í mat. Síðan gekk ég frá Lokastígnum sem leið lá að Grettisgötu.
 Á hvaða leið ert þú? spyr gömul skólasystir mín sem ég hef orðið samferða á leið minni að heiman til vinnu. 
 Ég er að fara í vinnuna, svara ég.
 Ha! Hvað segirðu? Ert þú búinn að fá vinnu?

(s. 9-10)