Kennarinn sem hvarf - sporlaust!

Kennarinn sem hvarf - sporlaust!
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

Um bókina

Loks er komið að skíðaferðalaginu hjá 6. BÖ og Sara er mjög spennt. Krakkarnir hafa næstum gleymt því þegar kennaranum var rænt fyrr um veturinn enda örugg frá mannræningjanum sem er fastur á bak við lás og slá. Nú er allt eins og það á að vera og ekkert getur farið úrskeiðis ... eða hvað?
   Þegar rútan nálgast skíðaskálann skellur á skelfilegt óveður. Dularfull atburðarás fer af stað og þau algjörlega sambandslaus við umheiminn.

úr bókinni

Um kvöldið kallar Bára á okkur að koma niður í matsal. Þau Jósep hafa eldað kvöldmat fyrir hópinn. Á borðinu er stór skál af pasta og grænmeti, löðrandi í tómatsósu. Þannig er maturinn yfirleitt á Íslandi. Fólk setur tómatsósu á næstum allan mat. Sama hvort það er kjúklingur, fiskur, pasta eða pylsur. Ég sá meira að segja stelpu setja tómatsósu ofan á rúgbrauð um daginn. Pabbi myndi sko aldrei leyfa mér að borða tómatsósu úr búð. Hann segir að þannig tómatsósa sé ekki einu sinni úr tómötum heldur eplamauki, litarefnum og sykri. Tilvonandi atvinnumenn í fótbolta eiga víst ekki að sprauta fljótandi sykri á matinn sinn.
Pabbi heldur að ég verði næsti Granit Xhaka og passar vel að ég borði bara hollan mat.    
   Engin tómatsósa! heyri ég pabba segja í huganum. 
   Enginn pabbi! svara ég hugsunum mínum og fæ mér brosandi aukaskammt af tómatsósu á pastað.
   Við stelpurnar erum fyrstar til að klára matinn, auk þess sem við erum með minnst læti, svo strákarnir þurfa að ganga frá. Hjá Báru og Jósep situr Rútur rútubílstjóri og slafrar í sig fjórða diskinn af pasta.

(s. 25-26)