Kjarval: Málarinn sem fór sínar eigin leiðir

Kjarval, Margrét Tryggvadóttir
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2019
Flokkur: 

um bókina

Flestir þekkja nafn Kjarvals – málarans sem er svo frægur að heilt listasafn er nefnt eftir honum. En hvernig var líf hans? Hvenær byrjaði hann að teikna og mála? Af hverju er stundum sagt að hann hafi sýnt Íslendingum landið sitt á nýjan hátt og hvers vegna sagði hann stundum bara Gilligogg þegar hann var spurður erfiðra spurninga?

Hér segir Margrét Tryggvadóttir sögu Jóhannesar S. Kjarvals og varpar ljósi á bæði sérlundaðan mann og einstakan listamann. Fjöldi málverka er í bókinni, auk ljósmynda af fólki og fyrirbærum.

úr bókinni

En hver var hann, þessi maður sem stóð aleinn úti í vondu veðri og málaði?

Jóhannes Sveinsson Kjarval var merkilegur karl, langur og mjór og gekk oftast um með hatt á höfðinu. Stundum var hann líka með varahatt í vasainum og ef hann hitti einhvern sem hann vildi heilsa af myndugleika skipti hann hversdagshattinum út fyrir sparihattinn í flýti svo að hann gæti tekið ofan með glæsibrag. Sumum fannst málarinn skrítinn en aðrir sögðu að hann væri snillingur. Víst er að hann fór aðrar leiðir í lífinu en flestir.

Sumt er ekki hægt að vita fyrir víst, eins og hvernig Jóhannesi leið eða hvað honum fannst. Þá kemur ímyndunaraflið að góðum notum. Sjálfur hafði hann ákaflega mikið ímyndunarafl og sá fyrir sér allts konar verur og dularfull fyrirbrigði. Þegar við skoðum sumar myndirnar hans getum við séð hvað hann í myndaði sér fyrir mörgum áratugum. Hann fyrirgefur okkur því örugglega þótt við reynum stundum að geta í eyðurnar í lífi hans. 

Jóhannes S. Kjarval var listmálari og einn sá virtasti sem fæðst hefur á Íslandi fyrr og síðar. Hann hafði ekki bara áhrif á samtíma sinn heldur líka síðari kynslóðir. Honum tókst að skapa eitthvað alveg nýtt og birta Íslendingum nýja sýn á landið sitt. Í þessari bók verður sögð saga hans og myndanna hans.

(s. 8)