Kláði

Kláði
Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2018
Flokkur: 

Um bókina

Sögurnar í þessu fyrsta smásagnasafni Fríðu Ísberg eru í senn djarfar, sposkar og ríkar af innsæi. Fríða smeygir sér af lipurð milli hugarheima ýmissa einstaklinga sem á einn eða annan hátt klæjar undan kröfum samtíma síns.

 

Úr Bókinni

 

Við stóðum sitt í hvorri röðinni í Krónunni. ég hafði ekki tekið eftir henni fyrstu mínúturnar, en hún hlaut að hafa staðið þarna jafn lengi og ég. Á eftir okkur báðum voru tvær til þrjár innkaupakerrur, og að minnsta kosti fjórar fyrir framan. Troðfullar. Það var 22. desember. Áreiti. Jólalög.

Hún hafði séð mig.

Ég sá það á því hvernig hún passaði sig vandlega að horfa ekki til vinstri. Eins og ég væri tak í hálsi hennar. Hún hlaut að hafa fundið fyrir því þegar ég starði ringluð á hana í nokkrar sekúndur áður en ég áttaði mig og leit undan. Í kringum hana hlupu tveir strákar, sá eldri í kringum fjögurra ára og sá yngri líklega orðinn tveggja. Ég tók upp símann og fletti henn upp á Facebook. Á prófílmyndinni stóð hún skælbrosandi við hvítan húsvegg með yngri strákinn í fanginu en sá eldri faðmaði hnéð á henni.

Í lögreglubúningi. Hún var orðin lögga.

Sumar manneskjur ganga einfaldlega upp í sjálfar sig. Eins og prímtölur. Þær geta ekki annað. Við hinar höfðum verið auðdeilanlegri, vissum ekkert hvað við vildum verða þegar fullorðna fólkið spurði. Dýralæknir? Fótboltakona? Ef ég væri tala væri ég kannski átján. Margir möguleikar. Hægt að deila með níu, sex, þremur og tveimur.

Eldri sonur hennar benti á nammi og suðaði. "Nei," sagði hún. Ströng. Stjórnsöm. Það var auðvelt að ímynda sér hana sekta fólk. Eins og áður fyrr.

Nei, þú ert ekki með hárið í tagl.

Ég má bara taka tvær vinkonur með mér heim.

Það eru bara ónytjungar sem fá sjö.

Það voru bara ónytjungar sem voru í HK. Það voru bara óntyjungar sem borðuðu Honey Nut Cheerios. Það voru bara ónytjungar sem hlustuðu ekki á Christinu Aguilera.

Við vissum ekki hvað það var að vera ónytjungur en vissum að það voru bara ónytjungar sem skúruðu gólf. Og það voru bara taílenskar konur sem skúruðu gólfin. Við þrömmuðum á skónum yfir nýskúruð gólfin. Konurnar litu upp úr gólfunum og fórnuðu höndum. Geta þessi grjón ekki bara verið heima hjá sér? sagði hún hátt og snjallt og við hinar héldum fyrir spangaðar tennurnar meðan við hlógum án þess að líta á þær.

Nokkrum metrum fyrir framan mig var eitthvað að gerast. Kassastarfsmaðurinn hél símtóli upp að eyranu á sér, fann ekki vöruna í kerfinu.  Einhvern veginn næ ég undantekningarlaust að veðja á vitlausa kassröð. Það er alltaf eitthvað: Kassastarfsmaðurinn nýbyrjaður og kann ekki að gera nótu. Strikanúmer virkar ekki. Viðskiptavindurinn á undan mér þarf að hlaupa aftur inn í búð til að sækja eitthvað eða út í bíl. Röðin hennar mjakaðist áfram og ég virti hana betur fyrir mér. Hún var í ljósgrárri ullarkápu. Svörtum leðurhönskum. Hárið karamelluljóst. Hún hefur beðið um náttúrulegan lit.

(s. 129-131)