Konungur af Aragon og aðrar sögur

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1986
Flokkur: 

Úr Konungur af Aragon og aðrar sögur:

Þau minntu helst á tvö lítil börn en þó var það fráleitt svo hávaxin sem þau voru, sérstaklega hann með þetta stóra höfuð og þessar þreknu karlmannlegu herðar. Hún var öll fínlegri þótt hávaxin væri og það mátti gera sér í hugarlund vel formaðan vanga hennar og það lýsti af hárinu sem var tekið upp í hnakkanum. Hann var svarthærður, vel klipptur.
 Við getum virt þau fyrir okkur eins lengi og við viljum. Við getum séð sjálf okkur í þessum hreyfingarlausu skuggum, horft á einn dag í lífi okkar löngu liðinn. Eða vorum við ekki einhvern tíma á ferð á svipuðum slóðum þegar allt var fögnuður og eftirvænting. Ekki síst svart vetrarmyrkrið og hvítt föl sem lýsir upp granna skugga og myndir sem annars væru máðar út. Við getum einnig gert okkur þau í hugarlund þar sem þau standa grafkyrr og minna á tvo erfðavísa sem leita hvor annan uppi í gerfrumunni, dragast af einhverjum ástæðum hvor að öðrum í fryminu, renna sem snöggvast saman í eina veru; minna á tvær stjörnur sem toga hvor aðra með sér, sameinast og hverfa í þeirri svipan sem orka þeirra er til annars ætluð. Og þarna standa þau á höfði áður en augu okkar snúa þeim rétt í þessari hraðfleygu tilveru sem sviptir þau allri hreyfingu á þessu andartaki.

(s. 154-155)