Krossgötur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2000
Flokkur: 


Úr Krossgötum:

Janúar
1
mánudagur
nýársnótt, kl. 03:00

Álfhóllinn glóir og nú opnast hann!
 Stína stendur eins og bergnumin. Álfarnir streyma út. Það stirnir á gullið. Sumir eru í bláum kyrtlum, aðrir í rauðum með gullband um sig miðja. Þeir líða út yfir vatnið og dansa. Nei, þeir svífa, snerta ekki svellið. Pilsin sveiflast í háaloft. Þarna kemur álfasveinn í blárri skikkju. Hann tekur sig út úr hópnum, gengur til Stínu, hún snýr sér undan en hann er kominn á eftir henni.
 Það stirnir á gullið í lófa hans. Hana langar til þess að snerta hann, réttir fram höndina en kippir henni að sér. Álfarnir taka á rás og Stína á eftir.

„Stína, hvert ertu að hlaupa?“ Addi greip fyrir munninn á sér. „Fjandans, ég gleymi mér alltaf.“
 Hann hljóp á eftir Stínu, náði henni við hólinn og leiddi hana til baka á krossgöturnar. Þegar hún settist á stólinn horfði hann í augun á henni. Ónot fóru um hann, horfði hún ekki einkennilega?
 Svo heyrði hann söng og hófaskelli sem nálguðust:
 „Stóð ég út í tunglsljósi, stóð ég út við skóg,
 stórir komu skarar, af álfum var þar nóg.“
 Jeppakarlarnir hleyptu hestunum til þeirra, stoppuðu og klöngruðust af baki. Annar var hávaxinn, hinn pínulítill.
 „Við erum búnir að ríða lengst upp í dal!“ sagði sá litli drafandi. „Ætlið þið nokkuð að drepa ykkur úr kulda?“
 „Nei, nei, við erum með heitt kakó,“ svaraði Addi.
 „Eruð þið enn að skoða stjörnurnar?“ spurði hinn. Hann reigði hnakkann aftur á bak og horfði upp í himininn. „Ég sé ekki nokkra einustu stjörnu en þarna er tunglið.“
 „Mér líst nú ekki á hana þessa. Hún er svo föl,“ sagði sá litli og benti á Stínu.
 „Hún er alltaf föl,“ svaraði Addi rólega. „En nú förum við að drífa okkur heim.“
 „Ég held að þið ættuð bara að koma ykkur í háttinn!“ sögðu báðir samtímis. „Klukkan er farin að ganga fjögur.“
 Þeir klöppuðu hestunum, staupuðu sig og lögðu af stað.
 „Gott að vera laus við þá,“ tautaði Addi og leit í kringum sig. Stína var aftur lögð af stað upp að Álfhóli og hann hélt í humátt á eftir henni. Það var eins og köld krumla læstist um brjóstið á Adda. Hvað sá hún hjá hólnum sem hann sá ekki?

(s. 116-117)