Kvöld í ljósturninum

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1995
Flokkur: 

Úr Kvöld í ljósturninum:

Annar Draumur Stjörnu-Odda

Þegar Stjörnu-Oddi hafði verið nokkra vetur í Flatey eftir sinn undarlega draum sem skráður er á gömlum bókum, varð honum kvöld nokkurt sem oftar gengið út undir bert loft að líta eftir gangi himintungla. Einsog nærri má geta var loft heiðskírt, tungl í fyllingu og stjörnur tindruðu furðulega bjartar að baki slæðum norðurljósa. Sjór svartur og sléttur og brá glömpum á flötinn. Þá gerist það að Stjörnu-Odda syfjar mjög í einni svipan og skiptir nú engum togum að hann leggst á hjarnið og lýkur aftur augum. Hann dreymir þá að honum þykir koma kló mikil úr norðvestri og hremma eyjuna og draga inn í kolamyrkur.
Hann vaknar ónotalega af þessum draumi og liggur um stund í fönninni og starir upp í himinhvolfið, fullvissar sig um að tunglið lýsir enn ásamt stjörnum, og allt í kringum hann sindra hrímstjörnur snævarins. Þegar hann hefur gengið úr skugga um þetta grípur hann djúp gleði og þakklæti, sem hann beinir upp til himintungla.
„Gömlu, gömlu, gömlu stjörnur,” muldrar hann eins og hann sé að fara með eldforna særingaþulu sem festi þær enn frekar á brautum sínum um aldur og ævi.
Svo rís hann á fætur, dustar af vaðmálskufli sínum svo hann verður aldökkur aftur, og snýr í átt til bæjarhúsa. Honum þykir einkennilega hljótt og auðnarlegt við bæinn þegar hann kemur að honum, og lítur nú enn til himins að átta sig á tímanum.
Enginn reykur upp af strompi, og engin glæta frá ljósgjafa á skjám. Hann vindur sér inn, haldinn kuldalegum grun og hraðar för inn bæjargöngin, þar sem frostið ríkir jafnt og úti.
Það er enginn í bænum. Og allt hafurtask manna er horfið, brekán, eldunaráhöld - þetta sér hann, eða öllu heldur finnur, í myrkrinu. Hann snarast út, dvelst ekki undir þessu þaki og tekur nú eftir því sem honum sást yfir áðan í sínu annarlega hugarástandi; að spor barna og fullorðinna liggja til sjávar, ásamt förum eftir meiða sleðans.
Hann veit að þau geta ekki verið löngu farin, og stikar í kufli sínum niður á fjörukampinn.
Skammt úti á voginum er næturdökkur bátur og í honum fólkið allt svartklætt og lýtur höfði í tunglskininu. Eitt barnanna heldur á lukt sem logar einsog lítil jarðstjarna. Sleðinn í flæðarmálinu. Hann kallar út í bátinn, röddu sem ber með sér bæði undrun og vott af örvæntingu.
„Farin! Hversvegna?” Hróp hans bergmála undir festingunni. En fólkið er enn álútt og virðist steinrunnið í bátnum sem sígur hægt fjær, í átt til fastalandsins, án þess þó að nokkur sitji undir árum.
Hann ýtir sleðanum á flot í stundarfáti, en það er ekki sjóhæfur farkostur og hann stekkur þegar í land og kuflinn hefur vöknað upp að mitti. En sleðann ber frá ströndinni, í kjölfar bátsins, sem fjarlægist nú óðum. Kuldinn læsist um hann, og nú finnur hann heltaka sig þungsinni sem er alger andstæða gleðinnar sem greip hann þegar hann vaknaði.
Hann sér ekki vonarstjörnuna sem blikar skærgul handan við norðurljósin.
(s. 10-12)