Kyndilmessa

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1971
Flokkur: 

Úr Kyndilmessu:

Erfiðir tímar

Nóra litla, hvert ætli þú hafir svo sem getað farið?
Jafnvel þótt þú hefðir tiplað yfir þessi ár
sem eru á milli okkar
biðu þín engin sældarkjör í húsi mínu.
Þér að segja, síst er það betra annars staðar.
Það hefur harnað á dalnum
og samkvæmt heilagri venju
bitnar atvinnuleysi ævinlega fyrst á konum
en hafi ég skilið þig rétt
muntu vilja sjá fyrir þér sjálf
á heiðarlegan hátt – Drottinn minn!
Kona með þitt uppeldi
og þessar líka hugmyndir um karlmenn.
Þú gætir kannski reynt að selja sorpriti
ævisögu þína og síðan, ef heppnin er með þér
leikið sjálfa þig í stórmynd.
Nei, góða mín, far þú aftur út í myrkrið.
Fjörðurinn er spegilsléttur og djúpur.
Bráðum kemur tunglið upp fyrir hvíta fjallsröndina
þá verður ratljóst.
Stallsystir þín, Anna Karenina tekur á móti þér á brautarstöðinni.
Hvílið ykkur stundarkorn yfir tebolla.
Það eru ennþá erfiðir tímar.