Kynjaverur í Kverkfjöllum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2003
Flokkur: 


Af bókarkápu:

Lítil eyja úti í Atlantshafi verður til. Loftandar og sæbúar hafa fylgst spenntir með tilurð landsins og með hverju fjalli, fossi, kletti og jökli verða til kraftmiklar og allsérstakar landvættir. Sumar eru brennheitar og aðrar ískaldar. Það er kannski þess vegna sem þær eiga í sífelldum erjum. En einn góðan veðurdag birtist mannfólk á fiskfuglum og sest að á landinu með kræklótta hausinn. Margar aldir líða og mannfólkið er sífellt með ný uppátæki, eins og að þeytast um hálendið á fýlufákum og fljúga í gegnum skelkaða loftanda á ógnvænlegum dúndurdrekum.


Úr Kynjaverum í Kverkfjöllum:

Á sólríkum degi sat Vís uppi í grænni hlíð ásamt Værum og Anga. Þeir voru að æfa sig að hnýta hnúta og Angi horfði með aðdáun á nefið á Værum sem var prýtt sex mismunandi hnútum.
 - Þetta get ég ekki af því nebbinn á mér er svo lítill, sagði hann.
 - Tærnar á þér eru furðu langar. Ég er viss um að þú getur hnýtt alveg fullt á þær, svaraði Vær.
 Angi byrjaði að hnýta tærnar en komst ekki langt því að Vís greip í hann og hvíslaði:
 - Sjáið þið, hvað er þetta eiginlega?
 Hann benti upp í loftið. Þeir litu upp og horfðu furður lostnir á litlar verur sem svifu þar um, hring eftir hring, tístandi og kvakandi. Nokkrar þeirra settust í hlíðina rétt framan við þá og gogguðu í jarðveginn eins og þær væru að leita að einhverju. Allt í einu dró ein þeirra stærðar maðk upp og hinar hoppuðu óðar til hennar. Þær slitu maðkinn í sundur og rifu hann í sig.
 - Þetta var ljótt að sjá, sagði Vær.
 - Hræðilegt, hvíslaði Angi.
 - Eitthvað segir mér að við eigum eftir að sjá það oftar, svaraði Vís.
 Hann reyndist sannspár. Með tímanum kom ótrúlegur fjöldi af þessum verum sem vættirnar kölluðu fugla. Þeir voru af ýmsum stærðum og gerðum og kvakið afar mismunandi. En eitt áttu þeir sameiginlegt: Þeir urðu að fá æti til að halda lífi.

(s. 29 - 30)