Landvættir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2012
Flokkur: 

um bókina

Sókrates er alræmdur maður af síðum Dagblaðsins þegar hann fær vinnu í kjötvinnslu á Kjalarnesi. Þar er tekið á móti honum af höfðingsskap og hlýju og hann hækkar fljótt í tign en myrk fortíð hans eltir hann upp metorðastigann. Nýr starfsmaður, formaður Þjóðernishreyfingarinnar – hvítt framboð, einnig alræmdur af síðum Dagblaðsins, hefur sterk áhrif á hann, og í sameiningu feta þeir heljarslóðir íslenskrar menningar fram að hinstu rökum.

úr bókinni

Forstjórinn er lengi að samþykkja nafnið hráskinka, því fram að þessu höfðu allar skinkur verið soðnar, öðruvísi er það engin skinka!?... Er ekki hægt að finna eitthvað betra nafn á þetta spyr Þórður... En tungumálið er breytingum undirorpið og nú getur skinka verið bæði hrá og soðin  /  að auki er þetta pepperóní eitthvað alveg nýtt  /  það er alveg nógu stór biti að kyngja því  / hvað er þetta pepperone?  /  einhvers konar útlensk kryddpylsa? spyr Þórður ennfremur  /  iss!  /  þá eru nú gömlu góðu bjúgun betri!  /  og pissan!  /  það er nú ljóti óþverrinn!  / tvuh!  /  þetta er ekki matur!  /  heldur rusl!  /  og ég borða ekki rusl!... Svo mælir eldri kynslóðin  /  við erum stödd í miðju landnámi  /  miðri byltingu  /  gamla fólkið tekur seint við sér  /  vill hafa allt eins og það var!  /  það lítur þessa nýjung djöfullegu hornauga  /  rígheldur sér í íslenska matargerð  /  sem áður var framandi fyrr á öldum  /  margt meira að segja frá Ítalíu  /  grjónagrautur  / makkarónur  /  eggjamjólk  /  kakósúpa með bruðum  /  það er íslenskur matur! ... Unga fólkið tekur pitsunni hins vegar fagnandi og vill fátt annað leggja sér til munns  /  unga fólkið hatar uppruna sinn  /  pitsan  /  þessi forni fátækramatur verður með undarlegum hætti að lúxusmat Íslendinga  /  sem þó verður af einhverjum djúpsálarlegum ástæðum að fara í felur með  /  enginn má eiginlega vita af því ef maður kaupir sér pitsu  /  það er falinn lúxus  /  einrænn og persónulegur  /  þegar maður gerir vel við sig  /  þetta er ekki heimilismatur og alls ekki matur hins duglega og sívinnandi manns eða konu  /  strákahópar geta étið pitsu og eru þá að hjúfra sig saman í lítilli uppreisn gegn fjölskyldunni og menningunni  /  pitsan getur aldrei losnað við sitt neikvæða orðspor  /  henni fylgja alltaf eilítið blendnir straumar  /  smá fyrirlitning  /  að maður eigi hana nú ekki alveg skilið  /  að einhver eldi fyrir mann á tíu mínútum  /  pitsan kemur alltaf með vott af sektarkennd  /  sem óverðskulduð verðlaun: matur letingja og sóða.

Einn morguninn eru komnir pitsastaðir allsstaðar  /  það endurspeglar sálarástand þjóðarinnar  /  hennar persónuleikaröskun  /  og eftir þetta skyndilega landnám pitsunnar tekst landsmönnum að afbaka flatbökuna  /  gera hana að sinni  /  einfalda  /  gera hana þjóðlega  /  pitsa er ekki pitsa nema á henni sé peppróní og sveppir  /  skinka og ananas  /  nautahakk og laukur  /  einn af þessum þremur dúettum  /  engin önnur samsetning kemst að  /  þaðan af síður fjölbreytni  /  sem þó er aðalsmerki pitsunnar  /  það er hlegið hátt og hneykslast ef einhver maður menntaður í vöggu pitsunnar  /  Ítalíu  /  vogar sér að setja egg  /  rækjur eða þistilhjörtu á pitsu  /  sá er samkynhneigður menningardúddi  /  þótt engin viti nákvæmlega hvað þistilhjörtu séu  /  en illa hljómar það!  /  og rækjur?  /  bara pöddur  /  Peppsvepp!  /  er aðalmálið og allsráðandi á pitsastöðunum  /  skinka og ananas er bara fyrir börn  /  laukur og paprika fyrir byrjendur  /  rækjur og þistilhjörtu bara fyrir sérvitringa og vísindamenn! ... Það er ein 18 tommu peppsvepp! Sendana!  /  þetta er smekkurinn  /  matarmenningin!  /  að þessu leituðu öndvegissúlurnar!  /  fyrir þetta var landið numið!  /  alþingi reist á Þingvöllum!  /  fyrir þetta riðu hetjur um héruð!  /  kristni upp tekin!  /  fornsögurnar ritaðar!  /  fyrir eina 18 tommu peppsvepp pitsu!  /  Jón Arason og synir hans hálshöggnir!  /  skipt um sið á ný!  /  passíusálmarnir ortir  /  fyrir eina pitsu!  /  fólk brennt á báli!  /  varð fólk úti á milli bæja  /  glímdi á sig hita  /  drukknuðu á miðunum  /  þreyðu móðuharðindin!  /  fyrir þetta svalt þjóðin og let kúga sig!  /  fyrir þetta byggðust bæirnir  /  firðirnir  /  fóru fiskipþorp í eyði!  /  öll landsbyggðin  /  og verksmiðjurnar byggðar  /  álbræðslur byggðar  /  náttúran eyðilögð... allt fyrir eina pitsu.

(s. 338-340)