Laus blöð : ljóð & textar

Laus blöð, Ragnar Helgi Ólafsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2021
Flokkur: 

um bókina

Bók þessi geymir ljóð og texta frá ýmsum tímum, á lausum blöðum sem bundin hafa verið í til hægðarauka og svo þau glatist síður.

Hér má finna tækifæriskvæði, heilræðavísur, minnismiða, fundin ljóð, eggjanakvæði, heimsendatexta og dægurlagatexta, jólalög, ádeilukveðskap, ljóð úr fyrri lífum, ástarsöngva, saknaðarljóð, ferðabálka, athuganir, vögguvísur, erfiljóð, grafskriftir, heimspekileg kvæði, gamankvæði í nokkrum tilbrigðum auk lausavísna. Flestir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi þótt eflaust falli ekki allt öllum í geð. 

úr bókinni

ÁSTÆÐA ÞESS AÐ SVO MARGIR MÁVAR ERU STAÐFUGLAR

Þvert á viðteknar skoðanir er staðreyndin sú að englar hafa enn auga með mannfólki. Á síðari tímumgera þeir það hins vegar svo minna ber á, oft í líki máva. Silfurmávur (larus argentatus) og svartbakar (larus marinus) voru lengi algengustu tegundirnar hér á landi en síðustu áratugina hefur hvítmávurinn (larus hyperboreus) verið að sækja í sig veðrið, sérstaklega vestanlands. Unga engla má þó stökum sinnum finna í gervi hettumáva. Það er þó fremur fátítt. Líklega eru það einhverskonar bernskubrek.

Mávarnir hafa sjaldnast bein afskipti af mannfólkinu og hlutast ógjarnan beint til um málefni þetta frekar en englar hafa nokkurn tíman gert. Þeir sitja á ljósastaurum, oft við fjölfarin gatnamót, kyrrir eins og stutt andartök. Þeir horfa í gegnum glær bílþök og opnar hauskúpur og lesa hugsanir mannanna.

Vetur, sumar, vor og haust - árið um kring. Einhver verður að lesa. Þetta er hin raunverulega ástæða þess að svo margir mávar eru staðfuglar.

(s. 59)