Leitin að Audrey Hepburn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Ár: 
2009
Flokkur: 
Af bókarkápu:

Gullbrandur Högnason er ævinlega tilbúinn að fylgja fólki út í ótal hversdagsævintýri, fólki sem segir honum hvernig hann eigi að klæða sig, bera sig, koma fram við konur og sleppa hugsunum sínum lausum eins og kanínum. Í París, Róm, Reykjavík og á Eyrarbakka eltir hann óljósan draum en hefur ekkert til að halda sér í nema pennann og dagbókina sem gleypir umhverfið orðrétt.

Úr Leitinni að Audrey Hepburn:

8. október

Eftir nokkra rannsókn hef ég komist að því að munur er á Róm og Eyrarbakka.
Hér í Róm er of margt sem býr yfir margræðri merkingu til að nokkur maður geti skilið það allt. Borgin hrynur yfir hann reyni hann að skilja hana alla.
Ef farið er í skoðunarferð um Eyrarbakka og nágrenni er hins vegar svo fátt “athyglisvert” að sjá, að maður áttar sig á að skoðunarferðin sjálf er mikilvægari en það sem fyrir augu ber. Eigin þörf fyrir að skoða og skilja er það sem maður á endanum upplifir eftir slíka ferð.
Á Eyrarbakka er hægt, fyrst ekkert er fyrir framan nefið á manni sem hrifsar alla skilningsþörfina í vörslu sína, að beina skoðunar- og skilningsþörfinni inn á við. Svoleiðis má búa nær sjálfum sér á Eyrarbakka en í Róm og ef maður býr nálægt sjálfum sér býr maður um leið nær manninum almennt.
Þannig ræður fjölmennið ekki öllu um hve nálægt fólki maður er.
Í þögninni á Eyrarbakka gerist það líka eftir langa einveru að ótal hvíslandi raddir sem þegja í margmenni og upplýsingaflæði fjölmiðla, heyrast í huganum og virðast jafnvel hafa eitt og annað merkilegt að segja – af því það er ekkert stórkostlegt og ábúðarmikið í umhverfinu eins og í Róm sem minnir á að þær eru tæplega til.
Þegar komið er svona nálægt manninum almennt og kynlegar raddir hans heyrast þá virðist Eyrarbakki stundum vera líflegri staður en Róm.

(s. 47)