Leitin að barninu í gjánni: Barnasaga ekki ætluð börnum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2008
Flokkur: 

Ingi Jensson myndskreytti.

Um bókina:

Í þessari ljúfu og táknrænu frásögn, sem sannarlega er skrifuð fyrir fullorðna, segir af ferðalagi barna, skólastjóra og kennslukonu um undarlega stigu. Leiðin liggur meðal annars inn um leynidyr í kjallara skólans en undir niðri kraumar önnur og áleitnari saga. Hún fjallar ekki síst um ímyndunaraflið sem stundum er tekið frá ungu fólki og þá ögrun sem felst í því að takast á við sjálfan sig.

Úr Leitin að barninu í gjánni:

Rósa biður Guð um að gefa sér draug

Skólasetningin hafði farið fram á fimmtudegi og strax daginn eftir, á föstudegi, var fyrsta mæting. Börnin áttu þá öðru fremur að kynnast hvert öðru og kennslukonunum, fara í leiki og vita hvað þau ættu að læra. Þeim var sett fyrir að búa sig undir kennsluna þegar þau kæmu í næstu viku. Um helgina áttu þau að vera með foreldrum sínum, hvíla sig og koma fersk í skólann.

Rósa átti aðeins að fylgja Dóra í nokkra daga. Hún var eldri og svo langt komin að hún var farin að læra nöfnin á höfuðborgum landanna í Asíu.

Núna hlakkaði hún til mánudagsins og sat hjá föður sínum sem sagði að það væri nytsamlegt að þekkja nöfn á borgum í fjarlægum löndum þótt hún hefði aldrei komið til þeirra.

,,Þú veist þá að minnsta kosti hvar þau eru á landakortinu, sagði hann og að það væri ágætt þegar fréttir voru í útvarpinu og sjónvarpinu af sprengingum og bardögum og birtar tölur um hvað margir hefðu fallið eða særst.

,,Ég veit þá hvar fólkið hefur verið drepið, sagði Rósa.

,,Alveg rétt, sagði faðir hennar.

Henni fannst skrýtið að menn væru fremur drepnir í borgum og bæjum en úti í sveit og spurði pabba sinn um þetta.

,,Fólk drukknar í Bangladesh en er drepið í Banglahor, sagði pabbinn og fletti landakortabók.

,,Er fólk aldrei drepið í Bangladesh? spurði Rósa.

,,Jú, í höfuðborginni, en ég man ekki í svipinn hvað hún heitir.

,,Kennslukonan í fyrra sagði að fólk væri drepið um allan heim, sagði Rósa.

,,Þarna ýkir hún, sagði faðir hennar. ,,Þetta á ekki við um okkur hér. Fólk er í mesta lagi stungið í bakið með hníf, en bara þegar það kemur af böllum.

,,Og líka á Hverfisgötunni, bætti Rósa við þrjóskulega og þóttist vita betur.

,,Kannski, samþykkti faðir hennar. ,,En það gerist bara um helgar.

(30-2)