Leitin að dýragarðinum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr Leitin að dýragarðinum:

Þegar örlagavindarnir blésu (brot)

I

Þetta hið annars fagra og stjörnubjarta kvöld, þegar örlagavindarnir byrjuðu að blása, voru hjónin Nikúlás og Nanna búin að reka vefnaðarvöruverslunina í meira en tólf ár, allt frá því að verslunarlengjan reis og verslanir hennar opnuðu hver á fætur annarri.

 Já þetta kvöld.
 Hljóðlátur þytur hefur leikið um næstum því auðar göturnar, rekið á undan sér bréfarusl og stigið við það dans meðfram gráleitum gangstéttum.
 Hann þyrlar því í hringi, vaggar því og veltir og bréfaruslið á sér að lokum enga undankomuleið.
 Skrjáfandi hafnar það í rennusteininum og endar með tómleika sinn á milli ryðbrúnna raufa í járnristum.

 Hvert Nikúlás og Nanna höfðu farið og hvaðan þau voru að koma, það veit enginn og ekkert benti til annars en allt gengi sinn vanagang og vefnaðarvöruverslunin blómstraði með svipuðum hætti og hún hafði gert jafn lengi og menn mundu eftir glerskiltinu með nöfnum þeirra, útidyrahurðinni og búðargluggunum tveim.

 Það gustar.
 Öðru hverju, einsog stef í þytmjúkri hljómkviðu kvöldsins, gustar köldum gusti.
 Hann strýkur húsin, veggi þeirra, með flötum lófa og sáldrar hrolli yfir göturnar, fastreyrðar við mállaust malbikið.
 Annars standa húsin þögul með ljós í gluggum og göturnar liggja með útlínur sínar, nákvæmlega eins og á borgarkortinu í símaskránni.
 Eftir glitsvörtu malbiki, framhjá þögulum húsum, renna bíldekk, svartir hjólbarðar rúlla.

(s. 147-148)