Leyndardómar Lundeyja

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1969
Flokkur: 

Úr Leyndardómum Lundeyja:

„Og nú fer ég einhvern næstu daga út í Lundeyjar, því um þær ætla ég að skrifa einn þátt. Þær eru merkur sögustaður, eins og þið kannske vitið.
Bolli gaut augunum á Adda og svaraði:
„Já, eitthvað höfum við heyrt um það, en ætli það séu ekki allt munnmælasögur?
„Jú, að sjálfsögðu er margt þjóðsögur einar. En þarna var klaustur, sem vitað er með vissu. En það er ekki um það, sem ég ætla aðallega að skrifa um, heldur um búskapinn, ábúendurna, sem vitað er um, heimilishætti, veiðar, örnefni, landslag og fl.
„En um auðæfi klaustursins! Hvað heldurðu um þau? spurði Addi.
„Það eru einungis tilgátur og áreiðanlega tilhæfulaust. Ég hugsa ekki um slíkt. En nú er ég að kjafta frá mér allt vit. Ég átti að veiða í matinn, meðan „kokkurinn skrapp í búð. Hann verður öskuvondur, ef ég stend á kjaftaþingi. Með þeim orðum steig „Herra X hlægjandi um borð í bát sinn.
Drengirnir bjuggust til brottfarar. Bolli snerist þó á hæli og sagði:
„Þú hefur ekkert meitt þig þarna áðan eða týnt neinu úr töskunni þinni?
„Nei, nei, ekki sem orð er á gerandi. Einn eða tvo marbletti í mesta lagi. Og ég rannsakaði vel töskuna mína, þegar ég kom um borð og ég hef ekki týnt svo miklu sem frímerki. Nei, nei, piltar góðir. Þið getið verið rólegir vegna þess arna. En nú verð ég að halda áfram við veiðarnar. Sé ykkur kannske seinna. Með þessum orðum sveiflaði „Herra X veiðistönginni og silfurgljáandi „spúnninn klauf loftið og féll síðan niður í lygnan sjóinn. Við það mynduðust litlar hringgárur á sjávarfletinum, sem dreifðust út frá einum punkti. En von bráðar hurfu þær af yfirborðinu og það varð aftur kyrrt og slétt. En brátt klauf svo „spúnninn aftur loftið og féll í sjóinn og nýir hringir hófu gáskafullan leik á leginum.
Þá kvöddu drengirnir þennan mann, sem þeir gátu alls ekki áttað sig á hvað var. Var hann bara góðlegur rithöfundur, eða var hann eitthvað annað – eitthvað, sem hann kærði sig ekki um að aðrir vissu?
(s. 27-28)