Leyndardómar Lundeyja : síðara bindi

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1970
Flokkur: 

Úr Leyndardómum Lundeyja, síðara bindi:

Loks náði Bolli til hans og tosaði hann upp í gatið til Skúla. Skúli tók í hálsband Krumma.
„Svona, komdu karl minn. Hér færð þú margt að sjá, vertu viss, og Krummi dinglaði rófunni.
Eftir skamma stund stóð svo allur hópurinn í þessum nýfundna helli. Nýfundinn var kannske ekki rétta orðið yfir það, því járnfleinarnir í veggnum gáfu til kynna, að einhver hafði lagt leið sína hér um, en hver það var og hve langt var síðan?
„Um þennan helli talaði Gísli aldrei. Hann hefur örugglega aldrei neitt um hann vitað, það þori ég að ábyrgjast, sagði Skúli.
„Sennilega vita fáir um hann, ef til vill bara við og Felix Fransson og kompaní, sagði Bolli.
„Heldur þú, Bolli, að þetta geti verið felustaður gamla ábótans? spurði Dísa.
„Ég er helzt á því. Þessir járnfleinar eru ævagamlir, hefði ég haldið, en hér er svo þurrt, að þeir hafa geymzt vel, sagði Bolli og þuklaði fleinana.
Félagarnir gengu nú um hellinn og lýstu í kring um sig. Ekki var neitt sérstakt að sjá þarna, sem þau stóðu, en hellirinn virtist liggja langt inn í eyjuna. Það var ekki hátt til lofts, gólfið dálítið hallandi frá gatinu, en það var slétt og þurrt.
„Þetta er eins og í gamalli kirkju. Hve langt skyldi þessi geimur ná? sagði Dísa.
„Hann gæti náð í gegn um eyjuna og þá er hann nú ekki svo ýkja langur, sagði Bolli.
„Nema að hann nái undir sjóinn, sagði Skúli.
„Þú heldur kannske að þetta sé leiðin ofan í ríki þursans, sem þú varst að fræða okkur á? sagði Addi.
(s. 193-194)