Leyndarmál Lúsindu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Barnabókin Lucinda's Secret eftir Tony DiTerlizzi og Holly Black. Þriðja bókin í ritröðinni Spiderwick sögurnar.

Úr Leyndarmáli Lúsindu:

“Við höfum séð svartálfa og tröll og griffín,” sagði Jared og var mikið niðri fyrir þegar þau röðuðu sér til fóta í spítalarúmið. Það var svo mikil frelsun að einhver trúði því sem maður sagði. Ef hún nú bara vildi útskýra fyrir þeim hversu mikilvægur Leiðarvísirinn væri mundi allt lagast.
“Og Tommutitt,” bætti Mallory við og krækti sér í köku og beit í. “Við höfum séð hann, en við erum samt ekki viss um hvort hann er búálfur eða umskiptingur.”
“Það er satt,” sagði Jared. “En við þurfum að spyrja þig um svolítið mikilvægt.”
“Tommutitt?” spurði Lúsinda frænka og klappaði Mallory á höndina. “Hann hef ég ekki séð í óratíma. Hvernig hefur hann það? Eins, býst ég við. Þeir hafa það alltaf eins allir saman, ekki satt?”
“Ég ... ég veit það ekki,” sagði Mallory.
Lúsí frænka teygði sig í borðskúffuna og tók fram snjáðan, grænan taupoka með útsaumuðum stjörnum. “Tommutittur elskaði þessa.”
Jared tók við pokanum og gægðist ofaní hann. Það glitraði á spilakrækjur úr silfri innan um smásteina og spilakúlur úr leir í pokanum. “Á hann þetta?”
“Ekki aldeilis,” sagði hún. “Ég á þetta, eða átti, meðan ég var nógu ung til að leika mér að svona löguðu. Ég vil að hann fái þetta. Garmurinn, aleinn í þessu gamla húsi. Hann hlýtur að hafa orðið glaður þegar þið komuð.”
Jared sýndist nú reyndar að Tommutittur hefði ekki orðið neitt ýkjaglaður, en hann sagði það ekki.

(s. 29-31)