Litla skólahúsið

Höfundur: 
Þýðandi: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1995

Um bókina

The One-room Schoolhouse eftir Jim Heynen, í þýðingu Gyrðis Elíassonar.

Úr Litla skólahúsinu

Hvað ef

HVAÐ MUNDI NÚ gerast ef maður kveikti eld í stabbanum í hlöðunni, tæki eina svona eldspýtu og kveikti í heyviskunum þarna við dyrnar, settist síðan í gáttina og hrópaði: Eldur! Eða maður gat hrópað: Hjálp! og athugað hverjir kæmu aðvífandi.

En ef maður gæti nú ekki slökkt eldinn? Maður gæti slökkt hann. Maður traðkar bara á honum, og hann slokknar samstundis.

Það kom ekkert út úr þessu spjalli þennan morgun. Þetta var bara hugdetta. En viku síðar fundu drengirnir haglaskot í skemmunni. Ef maður hristir þau, sagði einn drengjanna, þá heyrir maður höglin hringla innan í.

Svo þeir ákváðu að ná höglunum út. Þeir opnuðu patrónuna og litlu svörtu höglin ultu út. Síðan sáu þeir að skothylkið var enn ekki tómt.

Hvernig nær maður afganginum af þessu dóti út? spurði einn þeirra. Hann stakk nagla inn í skothylkið og náði pappírsvöndlinum út, en svarta þétttroðna púðrið var enn inni í skothylkinu. Þeir settu það í skrúfstykkið, lömdu síðan á naglann, reyndu að plokka byssupúðrið út. Það var ekki hægt, en í öllu falli sprakk það ekki. Þeir vissu ekki um litlu hettuna á hinum endanum sem sprengipinninn skellur á og kemur sprengingunni af stað í skothylkinu.

Eitthvað truflaði þá, kannski rotta, eða svengd, eða leiðindi. Þeir skildu haglaskotið eftir í skrúfstykkinu, þar sem mennirnir fundu það síðar, ásamt hamrinum og naglanum. Þeir sáu strax hvað drengirnir höfðu verið að bralla. Þeir losuðu skotið varlega, gættu þess að þrýsta ekki á sprengihettuna. Þeir voru skjálfhentir. Þeir vissu hvað hefði getað gerst, og eitt augnablik endurlifðu þeir sína eigin bernsku - mundu tréð sem féll í ranga átt, kaðalinn sem þeir rétt náðu að losa af hálsi vinar síns, ísinn sem reyndist jafn þunnur og þeir höfðu verið varaðir við. Öll þessi andartök forvitni eða fávisku sem hefðu getað drepið þá. Þeir spjölluðu saman um sín liðnu ævintýri, skutu inn á milli nokkrum taugaveiklunarhlátrum, ýfðu síðan upp reiði hver í öðrum og bjuggust til að vinna þau verk sem vinna þurfti.
(s. 18-19)