Ljóð handa hinum og þessum

Ljóð handa hinum og þessum
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981
Flokkur: 

úr bókinni

Dagur fyrir jól

Það er enn kominn dagur

Sólin er búinn að kveikja
á grýlukertunum
og vindurinn
getur ekki slökkt á þeim

Bílar híma hvítfextir
með rassinn upp í vindinn
eða mjakast eftir
skítugum götunum

Afmyndaðar kjötbolludósir á færibandi

Grá andlit
þeysa um óravíddir búðarglugganna
með jólabrosið
frosið
á vörunum.

Kvöld fyrir jól

Það er margt fólk
í strætisvagninum

Maður í svörtum frakka
með remólaðislettu
fer heim og setur upp jólasvipinn

Gömul kona með bláa prjónahúfu
fer heim og setur upp
kartöflur

Fjögurra ára strákpatti
situr í kjöltu móður sinnar
og kyssir heiminn
í gegnum rúðuna

Á einni biðstöðinni
er jólasveinn að bíða
eftir mosfellssveitarrútunni.