Ljóð vega gerð

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1982
Flokkur: 

Úr Ljóð vega gerð:

Hótel vonarinnar

VI (brot)

Galopin augu í svartasta myrkri
Fiðrildi í brjóstinu
eða leðurblaka
ellegar jójó og endrum
og sinnum
eins og dýr úr tyggigúmmíi
dúandi dúandi
Með þetta situr maður uppi
í svartasta myrkri
galopin augu

Ljósfælna deildin
þyrpist að
Mátti svo sem búast við því
Og hraðskreið er hún!
Dauðahald
Dauðaleit
Hvar í dauðanum
er andakt fögnuður?

Óútreiknanlegt er flug
Óútreiknanleg eru fylgsni
en ljósfælna deildin
leysir rúmtímavefinn
(útlínurnar þar sem líkið lá
teiknaðar með litkrít
á gerviefni dúksins
frammi í forstofunni
er dumbrautt teppi)
og ballið byrjar
í veggjalausu danshúsi
fiðrildið leðurblakan jójóið
og öll hin dúandi dúandi dýrin
stíga villtan og stundum
stirðnaðan
dans
við ljósfælnu deildina

hvergi óhultur
fyrir sjálfum mér h/f
járnbrautarteinar
liggja eins og spagettí út
og suður
út við sjónhring er hafið
dimma og gamla
aldurhnigið í hnappi
hnípir það umlandi
lengst í burtu
gengið á land!
hefur gengið á land!
færist nær færist nær
umlandi vindurinn
leikur hrollstef
á tannlausa greiðu

fleiri og fleiri skreiðast
á land!
torkennilegur þessi
umlandi
ef þau fara nú öll
að skreiðast á land!
allir fiskar og sjóskrímslin!
sjódauðir og hinir myrtu
allra þjóða
allra landa
allra tíma
allt sem sjórinn geymir!
nei vinur minn!
innsær
útsær
djúpsær
eða hvernig sem þú vilt
vera ávarpaður!
ekki senda þetta á land
á mína hugarströnd
ég er bara maður
eitt eintak maður

stöðvaðu strolluna!