Ljóðorkuþörf

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2009
Flokkur: 

Úr Ljóðorkuþörf:

Raunverulegar raddir

I

Þegar ég kom niður á aðalgötuna starði ég forviða á þögula mannmergðina með poka í höndum, poka sem virtust allir vera með óhreinum þvotti.
Allir þögulir, hver og einn, karlfólk og kvenfólk með áhyggjusvip og keifaði hvert sína leið með stóra plastpoka úr öllum mögulegum verslunum. Alveg ótrúlega fábreytilegur fjölbreytileiki!
Mannmergð með óhreinan þvott og segist vera þjóðfélag.

Ekkert hlustað.
Þýðir ekki að tala.
Hefur ekkert upp á sig að tala núna. Þykjast hafa haft rétt fyrir sér allan tímann, hafa varað við, séð allt fyrir...

Sérkennilegt hvað það er óspennandi rússíbanaferðalag, þegar græðgin og hrokinn skiptast á um að sitja undir stýri.
Ó hvað það er fyrirsjáanlegt, heyranlegt, finnanlegt; ekkert nema harðar tyggjóklessur, bragðlausar, dauðar.

Er það ekki furðulegt?

Að allir þessir milljarðar geti ekki af sér neitt nema smábæjarhroka smáþjóðarþegnsins; hvergi nokkur estetík, hvergi raunveruleg fegurð.

Ósýnilegar myndir liggja í loftinu, óheyranleg tónlist, stef sem gleymdist að hlusta eftir, fórst fyrir að anda að sér.
Urðu eftir í andrúmsloftinu. Allar hugsanlegar kenndir og tónar og dansandi líkamir.

Ekkert er pólitískara en fegurðin.