Lyklabarn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1979
Flokkur: 

Úr Lyklabarni:

 - Nú held ég að þið ættuð að setja drekann á loft. Það er komin þessi fína gjóla.
 Dísu og Árna fannst þetta góð hugmynd.
 Að skammri stund liðinni var drekinn kominn á loft. Þau skiptust á að stjórna honum. Árni hélt því fram að þetta væri glæsilegasti flugdreki sem nokkru sinni hefði verið smíðaður á Íslandi. Dísa samsinnti því en lét þess jafnframt getið að hún hefði ekki séð marga flugdreka um dagana.
 - Maður fær bara hálsríg að góna svona upp í loftið, sagði Guðfinna.
 - Leggstu þá í grasið, amma, sagði Árni, og láttu sólina skína á þig.
 Hún fór að ráðum hans og kvartaði ekki yfir hálsríg eftir það.
 Tíminn var fljótur að líða.
 Áður en varði var degi tekið að halla og mál komið að halda heim á leið. Pabbi Árna hafði ekkert veitt. Hann sagði að það skipti engu máli. Aðalatriðið væri hressingin sem væri fólgin í því að vera úti á svona fallegum degi.
 Árni var í sjöunda himni. Flugdrekinn hafði reynst framar öllum vonum. Allar hugleiðingar um veiðiskap viku fyrir ánægjuhjali um það hve vel hefði tekist með smíði drekans.
 Í huga Dísu var þessi dagur alveg sérstakur. Hún ætlaði að geyma hann lengi í minningunni.
 Guðfinna talaði hvorki um veiði né flugdreka á leiðinni heim. Hins vegar sagðist hún ekki vera frá því að hún hefði tekið lit í sólinni.

(s. 107-8)