Maðurinn er myndavél

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1988
Flokkur: 

Úr Maðurinn er myndavél:

Maðurinn er myndvél (brot)

Í þá daga gekk lífið enn hægan vanagang. Þögnin var meiri en hún er núna, sorgin þyngri, og hún var einhvern veginn svo samrunnin lífinu að engin leið var að greina þetta tvennt sundur: það að syrgja og að vera til. Hvað er sorg og hvað er líf? Enginn hefði getað svarað því. Samt voru dagarnir undarlega sólríkir, hafið rennislétt eins og nýrunnið út úr minni guðs. Og það var undarlega hlýtt, svona langt í norðri, en það var svalt í söngvum og ljóðum.

Síðla vetrar byrjaði konan að raula fyrir munni sér: Taktu sorg mína svala haf. Og þeir sem voru illgjarnir héldu því fram að hún væri að biðja hafið að taka eiginmann hennar til sín. Hann var skipstjóri á Voninni. En ómögulegt var að vita með vissu hvað þjáði hina sveru og ófríðu konu á hverju ári, þegar dagana fór að lengja og náttleysið jókst. Hún vissi það ekki einu sinni sjálf. Það eina sem hún sagði var að henni væri þungt fyrir hjartanu. Og ef barn spurði móður sína, hvað er þetta þunga, þá svaraði móðirin:

Auðvitað sorgin.

Hvaða sorg það var vissi enginn. Raunar var hún fyrir hjarta allra, kannski vegna þess að fólkið bjó við hafið, sem er uppspretta alls: endaleysis, kyrrðar og brims. Og það er í eðli sínu áþreifanlegur draumur.

Um leið og hlýir dagar komu og boðuðu vorkomu settist konan á ströndina. Síðan fór hún að vaða út í sjóinn. Hún óð ekki mjög langt, bara upp á læri, og þá fór hún að gráta og óð í land. Dagarnir liðu þannig, og konan óð stöðugt lengra og veinaði hærra móti sjónbaugnum í suðri. Að lokum óð hún upp að höndum. Þá var farið að fylgjast með henni, og með því að börnin voru oft niðri við sjó, báðu mæður þeirra þau að reka konuna úr sjónum.

Börnin tóku þessu þannig að þau hentu grjóti að konunni, svo sjórinn gusaðist yfir hana. Stráka langaði að henda grjóti í hausinn á henni, svo hún rotaðist og vitleysan vætlaði úr höfðinu á henni eins og blóð og rynni í sjóinn og fiskarnir ætu.

(s. 106-107)