Margt býr í myrkrinu

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1997
Flokkur: 

Íslensku barnabókaverðlaunin 1997.

Úr Margt býr í myrkrinu:

Gabríel hleypur í dauðans ofboði á milli húsanna. Það er niðamyrkur. Svitinn bogar af enninu. Hjartsláttur hans verður stöðugt hraðari og fæturnir þyngri. Fjósastígvélin eru mörgum númerum of stór og megna skítalykt leggur af þeim. Gabríel reynir árangurslaust að sparka þeim af sér þegar hann heyrir veruna nálgast og sér eftir að hafa fest axlaböndin í þau. Hann skýst inn í þröngt húsasund en þorir ekki fyrir sitt litla líf að nema staðar því andardrátturinn kæmi upp um hann. Ógnvekjandi hlátur heyrist í fjarska og skyndilega opnast fjöldi glugga. Daufa birtu leggur frá þeim á hvítan snjóinn. Gabríel reynir að öskra á hjálp en á erfitt með að koma upp hljóði. Blóðið frýs í æðum hans þegar hlæjandi beinagrindur birtast í glugganum og ýmist benda á hann eða seilast eftir honum. Tárum blandaður sviti rennur niður eftir kinnunum og Gabríel hleypur beint af augum. Þungt fótatak og trylltur hlátur bergmálar allt í kring og hann þræðir hvert húsasundið á fætur öðru. Tunglið hefur lagt á flótta á bak við skýin og stjörnurnar gera slíkt hið sama. Skyndilega sér Gabríel ljós í myrkrinu. Hann herðir á sprettinum en eitthvað virðist hafa hlaupið í axlaböndin. Þau vefjast á einhvern óskiljanlegan hátt marga hringi um grannan líkamann og þrengja óþyrmilega að honum. Hann á orðið erfitt með að hreyfa hendurnar og nú er ljósið fram undan hans eina von. Stórar kirkjudyr koma í ljós og Gabríel sér að hundruð logandi kerta mynda nokkurs konar braut upp að altarinu. Þegar hann er í þann mund að stökkva inn um dyrnar kippa axlaböndin í stígvélin með þeim afleiðingum að hann steinliggur fyrir framan þröskuldinn. Gabríel reynir að greiða úr flækjunni en getur með engu móti losað axlaböndin af stígvélunum. Hann tekur þá til bragðs að skríða af stað en lítur aftur fyrir sig eitt andartak í von um að sér hafi tekist að hrista veruna af sér. Hann æpir svo undir tekur í kirkjunni þegar hann sér að risastór maður, tötralega klæddur, stendur glottandi í dyrunum. Gabríel mætir augnaráði mannverunnar eitt stundarkorn og finnur ískulda hríslast um sig. Hann skríður áfram eins og hann eigi lífið að leysa og er sannfærður um að krumlur mannsins muni kippa í fótinn á honum á hverri stundu. Þegar Gabríel er kominn upp að altarinu, umkringdur leiftrandi kertalogum, lítur hann öðru sinni á manninn. Hann stendur enn í dyragættinni og lítur flóttalega í kringum sig. Það er eins og hann geti ekki stigið fæti inn í hús drottins og kann því augljóslega illa en glottir engu að síður. Gabríel gapir af undrun þegar mannskrattinn tekur af sér höfuðið og þeytir því inn eftir endilangri kirkjunni. Gabríel tekur fyrir augun þegar hann sér hausinn nálgast óðfluga. Hann gægist á milli fingra sér, með hjartað í buxunum og áður en hann veit af hefur hann gripið skellihlæjandi hausinn. Líklega varð einskær góðmennskan viljanum yfirsterkari því hausinn stefndi beint á altarið. „Gabríel!“ segir höfuðið glaðlega. „Björn heiti ég. Takk fyrir að grípa mig. Leiðinlegt að líkaminn skyldi ekki komast með. Hlakka til að sjá þig aftur, Gabríel!!“ Og svo hlær það tryllingslega.

(s. 7-9)