Marlíðendur

Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Marlíðendum:

Marlíðendur

Og er mjög leið á kveldið, mælti Geirríður við Gunnlaug: Það vildi ég, að þú færir eigi heim í kveld, því að margir eru marlíðendur; eru og oft flögð undir fögru skinni...
Eyrbyggja saga

Ég hef hugsað daga og nætur
um setningu úr bókinni.
Margir eru marlíðendur.
Ég átta mig á merkingunni,
en óttast að ég gerist
of fornlegur og orðin
taki af mér ráðin.
Ég er ekki kominn að því versta;
það eru verri staðir eftir,
grimmari orð, líkari mínu eigin kyni.
Fróðá sýndist friðsæl
þótt hún virtist afskekkt
þegar ég sá hana barn að aldri
útum glugga rútunnar.
Eftir lestur bókarinnar er Fróðá öðruvísi
og benregnið skelfir mig.
Selshöfuð þekki ég nú
og veit að selurinn verður aldrei lostinn
og mun sífellt skekja höfuðið
og litast um.
Ég sé ættföðurinn Snorra goða
ríða um héruð
í fylgd margra manna
sitja að drykkju við langelda
heima á Helgafelli
og skrafa við Guðrúnu.
Ég sé Gunnlaug með hold hlaupið af beinum
fyrir þá sök að vilja ekki þóknast Geirríði
og ég sé gálgann þar sem Oddur Kötluson hangir
og Kötlu barða grjóti undir höfðanum.
Við marlíðendur sjáum þetta allt,
hugum að ástinni, finnum girndina vaxa.
Hún vekur okkur svo að við líðum
um veröld hinna þróttlausu, heim þeirra daga
sem ekki er okkar heimur, sem er
athvarf þar sem við morknum að lokum sælir
undir mold að kirkju sem við höfum sjálfir látið gera.

Horfin ástríða okkar og blóð,
órólegt, staðfestulaust, óendanlegt og úfið haf.

(s. 9-10)