Með bómull í skónum

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Úr Með bómull í skónum:

 Skyndilega heyrast hófatök og söngur. Níels tappi er kominn út á svellið á Glampa, syngur við raust og veifar vasapela.
 - Er hann brjálaður? stynur Sara.
 - Hann var búinn að lofa að fara ekki á bak fullur, segir Una.
 - Hann er ekkert betri en Hilda. Hún svíkur allt sem hún lofar og þarf ekki einu sinni að vera full til þess, segir Binni.
 Níels ber bótastokkinn og Glampi töltir eftir svellinu.
 -Passaðu þig á vökinni, æpa krakkarnir en sú viðvörun kemur heldur seint. Glampi er kominn ískyggilega nærri vökinni og ísinn er of þunnur til að bera hann. Hár brestur heyrist og Glampi og Níels hverfa í vökina.
 Allir hendast að með öndina í hálsinum.
 Glampi brýst um í vatninu og reynir að komast upp á ísinn sem þolir ekki þungann og brotnar undan honum. Hann er búinn að stækka vökina um helming þegar hann kemur loks framlöppunum upp á ís sem heldur. Georg nær í beislið og togar. Eftir miklar stimpingar kemst Glampi upp. Hann hristir sig svo að sletturnar ganga í allar áttir og yfir krakkana. En Níels sést hvergi.
 - Hvar er hann? Hvar er Níels? hrópar hver upp í annan.
 Þá skýtur Níelsi upp sem snöggvast, hann sýpur hveljur og sekkur aftur.
 - Hann er ekki syndur, æpir einhver.
 - Haldið þið í lappirnar á mér, ég reyni að teygja mig í hann, segir Valdi og leggst á magann. Hann mjakar sér eins langt og hann þorir og grípur í Níels þegar honum skýtur upp næst. Níels þrífur krampakenndu taki um handlegginn á Valda, spriklar og berst um eins og óður. Svellið er hált og Níels of þungur. Hann togar Valda út í og strákarnir sleppa honum á síðustu stundu til að renna ekki út í sjálfir. Valdi og Níels hverfa í vatnið sem lykst saman yfir höfðum þeirra og áin streymir áfram silfurtær.

(s. 117-118)