Á meðan hann horfir á þig ertu María mey

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Á meðan hann horfir á þig ertu María mey:

Hann þagnar af því að ég tek fram í fyrir honum. Mín eigin rödd hljómar ókunnuglega: - Ég á engan kött.
- Nei, en þú átt svona uppáhalds vin, ótrúlega brotinn og útrúlega lifaðan og ótrúlegum tuttugu helvítis árum eldri en þú, sem kemur og fer eins og honum sýnist. Eins og bröndóttur köttur. Hann sefur hjá þér stundum. Samband ykkar er svolítið sadó-masó.
- Sadó-masó? Ét ég upp eftir honum.
- Já, eða þannig. Engar leðurólar en þér finnst gott að vera honum undirgefin af því að þá ertu saklaus og hrein eins og lítil stúlka. Hann skammtar þér ástina naumt og brýtur þig stundum niður með ljótum orðum, en huggar þig alltaf á efir. Þú veist samt að hann hefur bara þig og enga nema þig. Og hann elskar þig jafn mikið og hann kvelur þig. Stundum grætur hann þegar hann fær það og með ekkanum hrökkva upp úr honum orðin sem hann annars lætur ósögð: Af hverju...? eða: Ég drep þig! eða: Þú þú þú.
Á morgnana lagar þú fyrir hann kaffi og ef hann biður þig að vera bera á meðan þá gerir þú eins og hann segir þér og hann fylgist með hverri hreyfingu þinni með hreinsunareldinn brennandi í augunum og þú. Ert hreinni og hvítari en allt í augum hans og þú veist það og lifir upp í það. Ber að hella upp á kaffi. Á meðan hann horfir á þig ertu María mey.

(s. 21)