Milli trjánna

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akranes
Ár: 
2009
Flokkur: 
Af bókarkápu:

Milli trjánna er áttunda smásagnasafn Gyrðis Elíassonar, sem hlaut tilnefningu til hinna virtu Frank O’Connor bók­mennta­verðlauna vorið 2009 fyrir Steintré, síðasta smá­sagnasafn sitt. Og nú birtist safn 47 nýrra smásagna sem einkennast allar af þeim áreynslulausa og myndríka stíl sem prýðir verk Gyrðis. Þá kallast umfjöllunarefni þessa safns á við fyrri sögur höfundar. Hér bregður fyrir líkt og áður ýmiskonar óhugnaði og furðum, einsemd, draumum, ferðalögum, bernskuminningum og fram­tíðar­sýnum, auk þeirrar ísmeygilegu fyndni sem lesendur þekkja úr fyrri verkum.

Úr Milli trjánna:

Infernó (brot)

Þegar við komum að matsalnum barst ilmur af steiktum sænskum kjötbollum að vitum, og ég fann að ég var að verða svangur. Ég staldraði við í gættinni og leit inn í salinn. Þar var frekar fátt, en þó sátu nokkrir við borðin. Aðrir stóðu við afgreiðsluborðið og biðu þess að kjötbollum og kartöflum með sósu og týtuberjasultu yrði mokað upp á diskana.
Haustsólin skein inn um gluggann, og mér varð starsýnt á mann sem sat einsamall við eitt borðið útvið gluggann. Hann sat álútur, var rauðhærður og með gisið skegg, í svörtum frakka með uppbrettum kraga, og samlitt beltið lafði niður á gólfið. Hann var með bjór fyrir framan sig, og starði ofan í glasið einsog hann sæi ekkert annað, eða glasið væri skuggsjá þar sem mætti sjá heilan heim.
Mér fannst ég kannast við manninn, en áttaði mig ekki strax á honum. Svo rann skyndilega upp fyrir mér ljós. Þetta var August Strindberg.
Strindberg, sem hafði óttast helvíti meira en nokkuð annað, og hafði skrifað um þann ótta sinn, en var nú lentur hér eftir dauðann, í Ikea á Íslandi. Hann sem hafði haldið að Lundur væri helvíti á jörð, enn vissi fátt um Ísland og ekkert um Ikea, enda var það ekki til á hans dögum. Ég sá hvernig hann einsog seig meira og meira saman yfir bjórglasinu, dæmdur maður um alla eilífð. Hann sem hafði skrifað í dagbók sína: „Sá sem segir að lífið sé dásamlegt, er annaðhvort svín eða hálviti.”
„Sjáðu þarna,” sagði ég við konuna mína og benti yfir salinn.
„Hvar?”
„Þarna útvið gluggann.”
„Hver er þetta?”
„Þetta er August Strindberg.”
„Er það forstjórinn?” sagði hún áhugalaus. Svo lifnaði aðeins yfir svipnum og hún bætti við: „Eiginlega ætti ég að láta hann heyra hvernig þessi búð er orðin.”
„Nei, hann er rithöfundur,” sagði ég og leiðrétti mig síðan. „Eða var.”
„Þessi gamli meinarðu?”
„Já.”
Hún leit snöggt á mig.
„Þykistu vera farinn að sjá afturgöngur?”
„Ja, ég sá Draugasónötuna á sínum tíma.”
„Hvað ertu að meina, maður?”
„Þetta „Þetta er samt hann,” sagði ég.
Hún tók í jakkaermina mína og nánast dró mig áfram, í átt að hringdyrunum.

(s. 11-13)