Millilending

Millilending
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2017
Flokkur: 

um bókina

María er tuttugu og tveggja ára. Hún er komin til Reykjavíkur til að sækja litina hans Karls Kvarans. Svo ætlar hún að fara.

úr bókinni

- Af hverju varstu að koma til min í vinnuna?

- Hvað er að þér? Af hverju ertu svona leiðinlegur?

- Ég er ekkert leiðinlegur, ég bara nenni ekki lengur að vera meðvirkur.

Við sögðum ekkert í smástund. Ég sat enn á klósettinu með gyrt niður um mig.

- Eruð þið Ragnar hætt saman?

- Já

- Hvað er langt síðan?

Ég var of lengi að svara þannig að hann hélt áfram:

- Ég er ekki að reyna að vera leiðinlegur en þú hlýtur að skilja að ég nenni ekki að taka pásu í vinnunni til að fá að vita að ég fæ þann heiður að vera reboundið þitt.

- Jökull, ertu vangefinn? Ég kom til að tékka á þér því mig langaði til að hanga með þér og við höfum ekki talað saman síðan þú varðst geðveikur þegar ég byrjaði að hitta annan gaur, þrátt fyrir að ég hefði sagt svona þúsund sinnum að ég vildi að við værum bara vinir og þú varst sammála mér. Er ég núna einhver tík sem er að nota þig af því að mig langar til að hanga með þér?

- Sko ... mér er alveg sama hvort þú sért að nota mig eða ég að nota þig eða watever. Ég er bara ekki í þessum pakka lengur. Þetta var ekki beint heilbrigt, þetta sem við vorum að gera. Fyrir utan að ég á kærustu.

- Vá, sagði ég og hló með nefinu eins og hann gerði. Svona eins og þegar manni finnst hin manneskjan vera að segja eitthvað fáránlegt. Ég stóð upp og hysjaði upp um mig buxurnar. Sturtaði niður.

- Sérðu ekki hvað þú ert að gera? spurði hann. Hann talaði eins og hann væri að skrifa sjálfshjálparbók. - Þér er drullusama um mig. Þetta á milli okkar er ekki neitt. Það er ekki einu sinni ástæða til að rífast yfir þessu því þetta er ekki alvöru samband. Þú vilt bara hitta mig af því að þú ert einmana og líður illa og vilt hafa eitthvað að gera. Af sömu ástæðu og þú vilt fá þér tekíla og deyja einhvers staðar. Og ef vinir manns eru farnir að nota mann eins og þeir nota tekíla þá líður manni ekkert sérstaklega vel með sjálfan sig. Og ef þú gætir einhvern tíma séð heiminn með augum einhvers annars myndirðu fatta það.

Hann var farinn að frussa eins og geðsjúklingur þegar hann talaði. Ég gat ekki horft framan í hann og þegar ég leit undan sá ég í speglinum að ég var eldrauð í kinnunum. Gat eiginlega ekki talað fyrir kökk í hálsinum en ég var orðin svo reið að ég gerði það samt. Sagði honum að það væri gott að hann gæti fengi útrás á mér, vonandi liði honum betur. Og að hann vissi heldur ekki rassgat hvað væri búið að vera í gangi hjá mér þannig að ég væri greinilega ekki sú eina sem gæti ekki sett sig í spor annarra. Svo saug ég upp í nefnið eins og smábarn og þvoði mér um hendurnar. Svo sagði hann Sorrí og að hann ætlaði ekki að fá útrás á mér og að hann vissi ekkert hvað væri í gangi hjá mér. Og að hann ætlaði ekki að segja mér hvernig ég ætti að lifa lífinu. Að ég mætti gera það sem ég vildi og honum væri alveg sama. Og að hann nennti bara ekki lengur að vera í sama pakka og áður en ég fór út og að hann væri kominn yfir það og að við værum hvort sem er ekki kærustupar þannig að við hefðum ekkert til að rífast yfir og að við ættum ekkert að vera að rífast. Hann endaði á að segja að hann nennti þessu ekki lengur, svo horfði hann á gólfið og gaf mér tíma til að segja eitthvað á móti en mér datt ekkert í hug. Loksins sagði hann bara: - Ókei, ég þarf að halda áfram að vinna, og fór út. Ég læsti á eftir honum.

(s. 74-76)