Milljón prósent menn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1978
Flokkur: 

Iðunn 1978, Uglan Reykjavík 1991

Úr Milljón prósent mönnum:

(1921-1926)

Þegar Engilbert hafði verið fimm ár í Ameríku og ekkert frá honum frést voru foreldrar hans sannfærðir um að þau fengju aldrei að sjá son sinn oftar. En Kjartan bróðir hans var ekki á sama máli.
- Ég sé nú ekki betur en það glitti í sjakkettinn undir strigagörmunum, sagði Kjartan og virti fyrir sér myndina af Engilbert þar sem hann var að dorga niðrum gat á ísnum. - Þið skulið ekki hafa áhyggjur af þessu dýri. Hann kemur nokk heim einn daginn.
Og sá dagur kom. Síminn hringdi. Kjartan tók upp tólið.
- Morinn hvað er að frétta ertu ekki glaður í þínu hjarta.
- Hver er þetta með leyfi?
- Engilbert, þekkirðu mig ekki maður?
- Nei, guð minn almáttugur hvar ertu drengur?
- Niðrá bryggju og í guðanna bænum komdu í einum rennandi pípandi hvelli og náðu í mig mér er ekki nokkur leið að ganga þessar forargötur heim ég mundi útsvína mig allan.
- Hver var þetta, spurði faðir þeirra.
- Þetta var hann Engilbert.
Þögn í stofunni.
- Ja, mikið var, sagði faðir Engilberts.
- Hann bað mig að sækja sig vegna þess að hann vildi ekki skíta sig út á því að ganga heim.
- Það er naumast hann er orðinn fínn, jæja er ekki best að sækja strákinn.
Þegar þeir komu niður á bryggju sagði Ármann: - Heyrðu, þú ferð og nærð í hann ég fer ekki út úr bílnum, ég vil ekki láta sjá mig með honum ég get svosem ímyndað mér hvernig hann er til fara. Á sömu stundu kom Kjartan auga á Engilbert.
- Heyrðu pabbi þú þarft engar áhyggjur að hafa, því þarna kemur hann og hann er ekki með niðursuðudollur á löppunum í dag.
Engilbert kom skálmandi í áttina að bílnum og veifaði pípuhatti glaðlega. Hann var orðinn feitari og stuttstígari en þegar hann fór utan og byrjaður að vagga örlítið til hliðanna á gangi en þetta var Engilbert. Á því var enginn vafi. Hann var klæddur í sjakkett og hélt á silfurbúnum göngustaf.
- Morinn, sagði Engilbert.
- Hvar hefurðu verið allan þennan tíma drengur, spurði faðir hans.
- Skoða veröldina og verða að manni.
- Verða að manni! Ætli þú hafir ekki verið í læri hjá þessum Al Capone, sagði Kjartan. - Ekki yrði ég hissa á því. Best gæti ég trúað að þú sért potturinn og pannan í öllu því svínaríi. Al Capone. Ætli það ekki.
Þeir óku heim.

(s. 54-55)