Möltufálkinn

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990

Þýðing Ólafs Gunnarssonar á skáldsögunni The Maltese Falcon eftir Dashiell Hammett

Úr Möltufálkanum:

Hún leit aftur á Spade. Hann sinnti í engu biðjandi augum hennar. Hann hallaði sér upp að dyrastafnum og athugaði þá sem inni voru með háttvísu og hlutlausu fasi þess áhorfanda sem lætur það sem á sér stað sig engu skipta.
 Stúlkan beindi augunum til Dundy. Augu hennar voru dökk og galopin og hreinskilin. “Ég varð,” sagði hún lágmælt og skjálfrödduð. “Ég var hér inni einsömul með honum og hann réðist á mig. Ég gat ekki ... ég reyndi að halda honum frá mér. Ég ... ég gat ekki fengið af mér að skjóta hann.”
 “Lygarinn þinn!” æpti Cairo og reyndi án árangurs að draga þann handlegginn sem hélt byssunni úr greip Dundy. “Viðurstyggilegi lygari.” Hann rykkti sér til og stóð andspænis Dundy. “Hún lýgur eins og hún er löng til. Ég kom hingað og átti mér einskis ills von og þau réðust bæði á mig, og þegar þú komst þá fór hann fram til að tala við þig, og skildi hana hér eftir með skammbyssuna, og þá sagði hún að þau ætluðu sér að drepa mig þegar þið væruð farnir, ég hrópaði á hjálp, svo ég yrði ekki skilinn hér eftir og drepinn, og þá sló hún mig með skammbyssunni.”

(s. 74)