Mörg eru dags augu

Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1972
Flokkur: 

Úr Mörg eru dags augu:

Hversdagsljóð [brot]

10.
Þú ert löngu hættur
að borða hafragraut á morgnana
því að langt er síðan
þú misstir áhuga á því
að verða stór og sterkur
eins og móðir þín sagði.

Hvern skyldi hafa órað fyrir
að þú, renglulegur horkrangi,
ættir eftir að eignast óvin
sem kemur þér alltaf í opna skjöldu,
eins og Sesar mundi hafa sagt.

Nú berstu vonlausri baráttu
við sjálfan þig: ístru
sem stækkar með degi hverjum
það er eins og að heyja einvígi
vopnlaust.

.......

22.
Stundum verður þér hugsað
til forfeðranna
sem gengu um egghvasst brunahraun
á sauðskinsskóm
eða handritapjötlum
og lifðu af móðuharðindi
fyrir einhvern undursamlegan misskilning
án þess að nokkrum dytti í hug
að hlaupa með það í Velvakanda.

.......

27.
Gott að koma heim,
setjast að eggjum og harðfiski
og vera svo hamingjusamur
að eiga ekki sjónvarp –
gott að leggjast upp í sófa
og þurfa ekki að hugsa.

(s. 72, 80, 83)