Morgunþula í stráum

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Morgunþulu úr stráum:

Veröld heimsins

Ég er að ganga í snjó, sagði hann: Heimurinn er snjór. Snjór undir á grundinni sem þyrlast upp, snjór er allt loftið; himinninn hrapar í tætlum ofan á okkur, hvítur í flygsum, og svo kem ég í þessum alhvíta heimi að svörtum polli, svartri tjörn. Að svörtu himintári í gjá hamra sem ætla að fara að rísa. Senn.
Segir hann við sjálfan sig upp úr svefnrofum, einn í morgunsins húmi þar til sýnin hvarf við ferskan gust aðfaradags, vindsveip utan úr trjánum sem gusaðist inn um gluggann og lét tjaldið sigla einsog lárétt ský að leiðast inn í salinn og hrikta í stönginni sem hélt glugganum opnum; og hann hætti að reyna að tala inn í minni sitt því sem eimdi eftir af svefni og gliðnandi draumi sem við það hvarf, nema hann mundi bara orðin einsog þaðan: Svart auga í djúpri gjá. Og óraði fyrir atburðum frá því að sortnaði af hamrastáli kringum blinda gljá þess, meðan allt hafði verið hvítt, en var tekið að grána.
Og hann fór að sjá heiminn einsog kvað vera veröld heimsins.

(s.155)