Mundu mig ég man þig

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Um bókina 

Bókin inniheldur sex smásögur sem allar fjalla um 12 ára krakka, viðfangsefni þeirra og áhugamál. Flestar söguhetjurnar lenda í einhvers konar erfiðleikum en finna lausnir og læra eitthvað nýtt um tilveruna. 

Úr Mundu mig ég man þig:

Honum datt ekki í hug að fylgja þessum dóna eftir. Hann settist. Hallaði sér upp að fötunum sínum. Það var sár stingur í brjóstinu. Kökkur í hálsinum.
 Stundin var að renna upp, úrslitastundin, og hann var ekki í liðinu! Dæmdur til að dúsa á bekknum!
 Varamaður!
 Guffi kominn á línuna í hans stað! Þessi grútmáttlausa horrengla sem átti ævinlega fast sæti á bekknum!
 Þetta var eins og versta martröð! Hann sem hafði varla getað sofið fyrir spenningi síðustu næturnar. Allar hugsanir hans voru búnar að snúast um þennan leik. Sigvaldi hafði meira að segja gert því skóna að hann ætti mikla möguleika á að næla sér í verðlaunapening. Það átti að tilkynna eftir leikinn hver hefði verið kjörinn besti sóknarmaður mótsins!
 Og Lilja!
 Nú var hún auðvitað að velta því fyrir sér af hverju hann væri ekki í liðinu! Hún sem var komin sérstaklega til að horfa á hann! Hann hafði lofað að sýna henni tilþrif á heimsmælikvarða!
 Hann gat farið að orga, þetta var svo hrikalega neyðarlegt.

(s. 72-3)