Mýrarenglarnir falla : sögur

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1990
Flokkur: 

Úr Mýrarenglarnir falla:

 Fólkið þegir þunnt og þyngslalega aftur í stólana, eða bara fram á borðdúkinn. Kallinn liggur afturábak og inn í hornið, með hausinn í olnbogabótinni og hugsar mikinn. Allt með kyrrum kjörum sögðu þeir víst, og það er staðfest. Sá gamli þykist vita að það þýði að Ástralarnir séu að tapa. Það sé ekki nema von, þeir hvítu svo vanir að stríða. Og ég veit svo sem af því, Bretinn er vanur að skjóta, hann hefur skotið þau ósköp af Indverja, Negra, Búa og fjöldann allan af ljónum og fílum, að maður minnist nú ekki á alla Þjóðverjana. Og skiptir engu þó þetta séu trúlega ekki sömu menn og stóðu í hinum stríðunum, það er svo margt af Bretanum, og svona lagað liggur í eðlinu, rétt eins og veiði liggur í blóðinu og fjölskyldum.
 Það er lagst svona rykrökkur finnst mér með sóldoðanum yfir eldhúsið. Þulurinn leiður á lestrinum sem vonlegt er, eins og sálast af fólkinu, og þarf að segja oft frá því hverju og einu, og hvar það verði grafið og hvenær.
 Ég held að meira að segja við hérna séum hætt að heyra þetta. Og hálfgerður drungahali leggst um hálsinn á öllum með þessum óralanga lestri, að minnsta kosti þegar hann kemur beint ofaní ógæfulegar fréttir, eða vonda veðurspá. Og mér er hætt að lítast á þetta, mér þykir allt á sömu bókina. Þeir hafa víst öll lögin á móti sér og stjórnina, það gerir gæfumuninn. Auðvitað þekkir enginn hér lögin í Ástralíu, en ætli það sé ekki eins og annarsstaðar, það eru öll lönd að verða full af ólögum, og svo reglugerðunum, þær eru lang verstar. Það kemur að því að sportarar og hestamenn ná undir sig öllum löndum í heiminum, og svo kemur sumarbústaðahyskið og njósnararnir á eftir. Hér á allt eftir að verða eitt rennerí af hálfvitum sem eira ekki heima hjá sér. Hér er allt að fara til andskotans, ekki bara í kringum okkur, þetta er svona út um allar sveitir og landið, allir hreint að verða að aumingjum, hér eru ekki einu sinni skotnir ráðunautar og sérfræðingar, hvað þá ráðherrar eða bankastjórar. Þetta var ekki svona í fornöld. En núorðið fær allt að lifa, hversu ótuktarlegt og óþarft sem það er.

(s. 75-76)