Næturluktin

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2001
Flokkur: 

Um bókina:

Drengurinn Sigmar býr í sveitinni hjá Ágústi og Björgu, barnlausum hjónum á miðjum aldri, og með honum bærast undarlegar kenndir. Einn daginn grípur hann tréíkornann sem hann hefur tálgað: ”Ég held fast um íkornann og finn lífið í mér færast í hann og svo rennum við saman. Það brestur í kvistum. Ég er kominn í skóginn, ég heyri fuglatíst. Ég er aftur orðinn að íkorna.”

Næturluktin er sjálfstætt framhald fyrstu skáldsögu Gyrðis, Gangandi íkorna, sem kom út árið 1987, og vakti mikla athygli. 

Úr Næturluktinni:

Blár pallbíll fór fram úr honum, sveigði síðan út í vegbrún og nam staðar. Út úr honum steig svartur Nýfundnalandshundur með græna skyggnishúfu. Hann virtist vera á miðjum aldri, og var farinn að grána á kjömmum.
“Góðan dag,” sagði hann hrjúft en þó vinsamlega.
Íkorninn tók undir.
“Finnur heiti ég,” sagði hundurinn og rétti fram loppu sem minnti helst á bjarnarhramm.
“Ég er á leið í þorpið,” sagði hundurinn. “Viltu koma með?” Íkorninn leit til himins. Það var að verða áliðið dags. Svo leit hann aftur á hundinn og þáði boðið. Nýfundnalandshundurinn tók hjólið hans og sveiflaði því upp á pallinn. Á pallinum voru nokkrir trékassar, fullir af dröfnóttum eggjum.
Þeir lögðu af stað. Umferðin var minni en áður. En stundum varð Finnur að víkja út í kant af því vegurinn var ekki nógu breiður. Þess á milli ók hann eins hratt og brothættur farmurinn leyfði.
“Hvað er í þorpinu?” spurði íkorninn.
“Eitt og annað,” svaraði hundurinn. “Þetta er lítill heilsubær, stendur við stórt stöðuvatn.”
“En borgin?” spurði íkorninn.
Það dimmdi yfir svip hundsins.
“Engin borg lengur,” sagði hann. Alveg eins og gamla kanínan hafði sagt íkornanum.
“En mennirnir?” áræddi íkorninn að spyrja.
Hundurinn dró skyggnishúfuna ofan í augu, kreppti loppur um stýrið og svaraði engu. Íkorninn sá að hann beit á jaxlinn.
“Alltaf sama leyndin yfir hlutunum í þessum heimi,” hugsaði íkorninn og fann snöggvast til gremju.

(s. 79-80)