Nætursöngvar

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1998
Flokkur: 

Úr Nætursöngvum:

Formáli

Maðurinn með hrafnshöfuðið birtist mér fyrst í draumi í maí 1989. Draumurinn var stuttur, skýr og einfaldur einsog draumar mínir voru yfirleitt.
Ég sat ein undir tré.
Það var einsog golan læddist í greinum þess með undarlega lágu hljóði sem ég hafði aldrei heyrt fyrr og einhvern veginn fannst mér tregafullt lag kveða við undir þessu hljóði.
Annars var allt kyrrt.
Og á himninum voru ský í fjarska sem ég sá milli greinanna þótt byrjað væri að rökkva. Ég rétti fram höndina til að teygja mig í blóm sem ég horfði á spretta upp úr moldinni við bera fætur mína en þá heyrði ég hvin. Ég hrökk við og leit í kringum mig og sá hann standa þar sem blómið spratt. Hann beygði sig að mér, snerti höfuð mitt með grönnum fingrunum og hvíslaði:
- Þú átt eftir að segja sögu okkar.
Og svo hvarf hann og ég vaknaði.
Ég skráði drauminn strax hjá mér og dagsetti hann, en þegar þetta var, hafði ég í mörg ár skráð drauma mína í þeim tilgangi að rannsaka tákn þeirra og vísanir. Það hafði oft komið að gagni. Ég man að mér þótti draumurinn undarlegur og lengi eftir þessa nótt varð mér hugsað til mannsins með hrafnshöfuðið en hann hafði í senn kveikt forvitni mína og fyllt mig óhug.

(s. 7-8)