Næturstaður

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2002
Flokkur: 
Úr Næturstað:

Hálfgerður dóttursonur, hvernig vék því við?
Ég fékk brotakenndar upplýsingar um það smám saman, tók mörg ár að reyna að setja saman þá myndþraut. Náði henni aldrei alveg. Hálfgerður vegna þess að móðir mín raunveruleg, blóðmóðir er það víst kallað, hún var hér á vegum foreldra minna, þannig var það stundum sagt, að þau hafi tekið hana að sér í erfiðleikum hennar...
Hvað átti ég að halda? Er aldrei hægt að segja nokkurn skapaðan hlut sem nálgast það að vera staðreyndir, koma klárum upplýsingum til skila?
Þeim mun meira sem ég spurði, þeim mun meira fékk ég að heyra af umorðunum og fjarlægingum, jafnvel málsháttum.

Blágrá augu, dökk blágrá augu...
Þau voru sérstök, ekki starandi en það var stundum í þeim stjarfur bjarmi, hlýlegur samt.
Augu móður að horfa á barn sitt. Barnið sér að það er horft á það. Skynjar þannig að það er til sem sjálfstæð persóna, skynjar en skilur það kannski ekki fyrr en löngu síðar. Neðst í kassanum eru lausir pappírar, bréf, allt í kös. Bútur með skrift pabba, virðist vera partur af einhverju stærra, uppkast að bréfi eða eitthvað sem ekki hefur verið sent.
Þar stendur:
Rúna hefur verið hrópandi hér út um allt undanfarið, staðið úti á svölum og æpt, reynt að ryðjast inn á öllum tímum sólarhrings, þetta er að verða illþolandi. Við höfum miklar áhyggjur af því að hún skaði litla barnið.
Svo er þarna bréf sem einhver Vilborg skrifar foreldrum mínum, vitnar í bréf þeirra, samhryggist þeim, vonar að þeim litla líði vel... Minnist á slysið á Nesinu ... skelfilegt að svona ung kona fari með þessum hætti...
Þrátt fyrir þetta hræðilega slys á Nesinu, þá er gott til þess að hugsa að hún hafi loksins fengið hvílt, Rúna blessunin.
Slysið á Nesinu... hef heyrt þetta áður en það er eitt af fjölmörgum atriðum sem hafa öðlast sjálfstæða tilveru í minningakófinu, án tenginga við aðra hluti, allra síst hugsanleg örlög raunverulegrar móður minnar (raunmóður, er hægt að segja það...?) - tengslin horfin eins og augu hennar sem ég man ekki þó að ég hljóti einhvern tíma í árdaga að hafa horft á þau. Horft á þau horfa á mig.

(80-81)