Neyðarútgangur: ljóðaúrval 1967-2015

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016

Um Neyðarútgang

Neyðarútgangur er úrval ljóða eftir pólsku skáldkonuna Ewu Lipsku. Í bókinni er valið efni úr öllum útgefnum ljóðabókum skáldsins sem er meðal þekktustu samtímaskálda Pólverja.

Olga Holołwnia valdi efnið og ritstýrði verkinu, en þýðendur eru: Áslaug Agnarsdóttir, Bragi Ólafsson, Magnús Sigurðsson, Olga Hołownia og Óskar Árni Óskarsson.

Ewa Lipska fæddist árið 1945 í Kraká í Póllandi og sendi frá sér fyrstu ljóðbók sína árið 1967. Sú bók vakti mikla athygli og síðan hafa komið nær tveir tugir ljóðabóka út eftir hana. Þótt vissulega megi telja að Ewa Lipska tilheyri nýbylgjuskáldunum í Póllandi sem komu fram á sjónarsviðið undir lok sjöunda áratugar liðinnar aldar hefur hún sjálf alla tíð lagt á það áherslu að hún sé hvorki bundin straumum né stefnum.

Haustið 2013 kom Ewa Lipska til Íslands á vegum Bókmenntahátíðar í Reykjavík og ljóðaverkefnisins ORT.

Úr þýðingum Braga

Hyldýpi

Af og til sérðu múrhúðina
hrynja af höfðunum.
Framhlið vitsins flagna af.

Sagan enn og aftur.
Til hvers að líta til baka
fyrst allt er fram undan hvort eð er.
Hefur þegar gerst. Ekki hægt að snúa við.

Ég sit undir slitnum himni
og hlusta á það sem meðalmennskan hefur að segja.

Í bænakverunum
er bókamerki með auglýsingu
um hrukkukrem fugla.

Út úr hverri þjóð þú veist það
er hægt að kreista morðingja.

Siðgæðið kveinkar sér við girðinguna
undir sítrónu sólarinnar.

Svolítil leiðindi nægja. Óp frá ræðuhöldunum.
og af illkvittni – hyldýpið.

(91)

 

Úr þýðingum Óskars

***

Flóð björguðu mér ekki
samt hef ég legið á hafsbotni.

Eldur bjargaði mér ekki
samt hafa logarnir leikið um mig árum saman.

Hamfarir björguðu mér ekki
þótt ég hafi orðið fyrir bílum og járnbrautarlestum.

Mér var ekki bjargað af flugvélunum
sem sprungu í háloftunum með mig innanborðs.

Múrar hinna miklu borga
féllu yfir mig.

Eitraðir sveppir björguðu mér ekki
né byssukúlur aftökusveitanna.

Endalok heimsins björguðu mér ekki:
þeim entist ekki tími til þess.

Ekkert bjargaði mér.

ÉG ER Á LÍFI.

(42)