Nítján smáþættir

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981
Flokkur: 

Úr Nítján smáþættir:

Gamla danska frúin var í sértrúarsöfnuði. Og hún þekkti Krist og guð og alla þrenninguna betur en aðrir, sem ég hef kynnzt. Hún gerði ítrekaðar tilraunir til að halda okkur við efnið og leit okkur sömu augum og við hundtyrkjann fyrr á öldum. Þegar hún flutti fyrirlestra sína um þá einu réttu trú, bauð hún okkur að ganga inn í stofuna, sem var full af dýrum munum og minnti einna helzt á listasafn Vatíkansins. Hún átti marga vasa, bæði frá Bing & Gröndahl og Konunglegu postulínsverksmiðjunni og jafnvel einhverjar styttur líka, ef ég man rétt. Og hún hélt stofunni sinni hreinni. Dustaði af vösunum, skápunum og borðunum með fjaðrasóp, sem var svo fínn, að ég held að hann hefði dustað syndina af hvaða sál, sem var. En hún átti aðeins eina bók, ritninguna, og las hana við hvert tækifæri.

Þegar andinn kom yfir hana, þ.e. „rétta trúin, kallaði hún gjarna á mig og bauð mér að setjast í silkistól í stofunni. Svo settist hún andspænis mér og ég var nauðbeygður að hlusta á langa prédikun, því sízt af öllu vildi ég móðga hana: Í fyrsta lagi gat hún sagt okkur upp herberginu og rekið okkur á dyr á stundinni, og í öðru lagi hafði hún tögl og hagldir í himnaríki og var í stöðugu sambandi við heilagan anda, óþreytandi að halda fram þessum tengslum sínum og hóta manni eilífri útskúfun af minnsta tilefni. Máli sínu til stuðnings vitnaði hún óspart í gamlatestamentið og opinberunarbókina, en einstaka sinnum í Pál þegar mikið lá við. En aldrei í guðspjöllin.

(s. 33-34)