Njósnir að næturþeli

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Akureyri
Ár: 
1967
Flokkur: 

Úr Njósnir að næturþeli:

Bolli sat dolfallinn með kortið í höndunum. Hvað gátu þessi merki átt að tákna? Var þetta einmitt vísbending um það, að eitthvað mikilvægt ætti að ske við þessa staði? Og svarið lá fyrir að hálfu leyti. Bolli vissi vel, hvað átti að gerast og hvað hafði gerzt við voginn, en hvað hafði þá Hófdalur að geyma, eða hvaða hlutverk beið hans? Gat það hugsazt, að þeir hefðu einhverja bækistöð þar? Kannski ætluðu þeir að geyma eitthvað af gullinu þar í einhverjum hellinum? Þó fannst Bolla það fremur ótrúlegt. Þá rann allt í einu upp ljós fyrir honum, og lá við að hann hrópaði upp yfir sig. Nú vissi hann það. Það var talstöðin sem þarna var geymd! Þá kvað við urr frá Krumma. Bolli þeytti saman kortinu, stakk því í töskuna og skellti henni aftur og hentist út úr tjaldinu og tók á rás upp að stekknum. Ekki mátti heldur tæpara standa, því rétt á eftir birtist John Smith á hjóli sínu. Þarna hafði hurð skollið nærri hælum. Og hefði Krummi ekki haft veður af Englendingnum, þá hefði Bolli verið illa settur. Þá hefðu áreiðanlega vaknað grunsemdir í brjósti John Smiths, og svo hefði þannig getað farið, að drengirnir hefðu síðan ekkert tækifæri fengið til að rannsaka atferli hans og manna hans. Bolli strauk því hlýlega yfir kollinn á Krumma, og hann dillaði rófunni vinalega. Síðan beið Bolli unz John Smith var horfinn inn í tjaldið, þá lagði hann af stað sömu leið og hann hafði komið. Nú ætlaði hann að hitta vini sína og skýra þeim frá uppgötvun sinni.

(s. 41-42)