Nornasaga 2 – Nýársnótt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2020
Flokkur: 

um bókina

Kristín Ragna Gunnarsdóttir er höfundur mynda og texta.

Ógnvænlegt ævintýri!

Katla er upptekin við allt annað en jólaundirbúning. Hún ætlar að opna galdragátt á nýársnótt til að nornin Heiður komist aftur til Íslands. Þess í stað veldur hún sprengingu og hrindir af stað æsilegri atburðarás. Barrtré spretta upp á methraða, systkini Kötlu hverfa, úlfur sést í Öskjuhlíðinni, tröllskessa við Tjörnina og ógnarlangur ormur í Reykjavíkurhöfn.

Hvað er eiginlega í gangi?

Er Gullveig komin aftur?

Ef ekki … hver þá?

Katla og Máni þurfa að finna svör áður en það er of seint – og þá reynir á vinskapinn!

Nornasaga 2 – Nýársnótt er framhald bókarinnar Nornasaga – Hrekkjavakan.

úr bókinni

Þórdís óð stefnulaust um rjóðrið með uppglennt augu. "Kári! Kría!" öskraði hún aftur og aftur.

Skyndilega barst fótatak frá stígnum sem við höfðum komið eftir. Við hrukkum öll við og hjartað í mér stökk upp í háls. En þetta voru ekki Kári og Kría, heldur bara æstur fréttamaður með myndavél á lofti. Hann var aðeins of kunnuglegur:

"Óðríkur Eyfjörð Skagdal," sagði lögreglumaðurinn og andvarpaði. Hann kannaðist greinilega líka við kauða. 

"Blessaður; kallinn. Hvað er eiginlega hér um að vera? Ég frétti af sporum, sporhundum og allt," sagði Óðríkur og smellti af nokkrum myndum. Svo rak hann augun í gallann á jörðinni og var ekki lengi að rífa upp símann. "Er það Hervör? Sæl, Óóóðríkur heiti ég. Þú auglýstir eftir hundi. Fundarlaun ... einmitt. Ég er staddur í Öskjuhlíðinni og ..."

"Ég kalla út leitarhóp," sagði lögreglumaðurinn við mæður mínar. "Það er best að þið bíðið í bílnum."

"Ekki séns!" hrópaði ég og tók á rás inn á milli trjánna.

Raddir mæðra minna hljómuðu að baki mér en ég lét þær sem vind um eyrun þjóta. Ef þessi ummerki voru eftir Gullveigu varð ég að finna Kára og Kríu strax. Ég bara varð! En það var hægara sagt en gert að finna nokkuð í dimmum skóginum. Ég ranglaði örvæntingarfull milli grenitrjánna sem virtust staðráðin í að rispa á mér andlitið. Stærðarinnar köngulóarvefir voru strengdir milli greinanna hér og þar en ég gat notað göngustafinn hennar Heiðar til að halda glitrandi þráðunum frá mér. Síðan hvenær var allt morandi í kóngulóm um miðjan vetur? Voru þetta ummerki eftir galdurinn minn eða var hlýnun jarðar komin á hættulegt stig?

Eftir dágóða stund var mig farið að gruna að ég hefði gengið í hring en kom þá auga á sundurslitna beinagrind á jörðinni. Ég fylltist óhug. Á nokkrum beinanna voru tannaför. Í dagblaðinu var talað um úlfa. Gat spangólið sem ég hafði heyrt á aðfangadagskvöld verið úlfagá?

"Kári, Kría, hvar eruð þið?" kallaði ég skjálfandi röddu. Ég bara varð að finna systkini mín.

Skyndilega byrjaði vindurinn að blása. Vinhviða þyrlaði jarðveginum upp í kringum mig. Munnurinn fylltist af mold og mér fannst sem hvíslað væri að mér: "Ég er hééér, ég er hééér."

Ég bar fyrir mig stafinn. "Farðu frá mér, hver sem þú ert," hrópaði ég og hrækti moldinni út úr mér.

Vindinn lægði en ég fann fyrir sviða undir silfurbandinu. Ég hljóp áfram og hafði sterklega á tilfinningunni að einhver væri að fylgjast með mér.

Allt í einu flaug hvítur fugl með svarta hettu niður milli trjánna. Hann skríkti í gríð og erg og stefndi beint á mig. Minnug starraárásanna frá því í haust lyfti ég stafnum yfir höfuðið til að fuglinn gæti ekki goggað í mig og galaði: "Burt með þig!"

(s. 70-72)