Nóttin langa

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2015
Flokkur: 

Sjálfstætt framhald Úlfshjarta (2013).

Alexander og Védís eru varúlfar. Þau hafa helgað líf sitt því að kenna öðru fólki með varúlfagen að hafa hemil á eðli sínu. Nú er kominn fram á sjónarsviðið stórhættulegur óvinur. Hinn svartklæddi öfgahópur Caput sveiflar flugbeittum sveðjum og ætlar sér ekkert minna en að útrýma öllum varúlfum á jörðinni. Sögur herma að nú stefni Caput til Íslands, eyjar berserkjanna og fæðingarstaðar sjálfs varúlfagensins. Þegar Alexander kemur heim í risíbúðina í Reykjavík eitt síðdegið er Védís horfin. Þar með ganga í garð myrkir tímar. Niðdimm nótt sem ætlar engan endi að taka.

Úr bókinni:

Alexander hnyklar brýnnar, vefur um sig handklæði og röltir um þrönga íbúðina. Hann finnur nokkrar hárteygjur, tvo hálsklúta og tóma dollu undan bleikum varasalva en að öðru leyti er eins og þarna hafi ekki stigið kvenmaður inn í margar vikur.

Védís hafði gist hjá honum um nóttina, eins og svo oft áður, en núna er eins og það hafi bara aldrei gerst. Hún er það mikið hjá honum að yfirleitt eru föt og skór úti um allt, líka sjampóbrúsar og snyrtivörur og þannig. Og fjólublái tannburstinn hennar er alltaf á sínum stað í glasinu við vaskinn. En ekki núna.

Hvað er í gangi?

Hann tekur upp símann og hringir í hana. „Í augnablikinu er slökkt á farsímanum, hann utan þjónustusvæðis eða allar línur uppteknar …

Alexander þornar í munninum og fær sting í magann. Védís er búin að vera bæði uppstökk og skrýtin undanfarið, eins og eitthvað sé að angra hana, en hún hefur aldrei látið sig hverfa svona áður.

Hefur eitthvað komið upp á eða …

Í svefnherberginu finnur hann handskrifaðan miða á náttborðinu.

Hæ.

Fór að hitta pabba.

V.

Alexander starir á miðann, sem skelfur eins og lauf í hendi hans. Að hitta pabba sinn? En er hann ekki ennþá á Hornströndum?

Fór hún til Vestfjarða án hans?

Ekkert ég elska þig eða neitt. Ekki einu sinni bless eða sjáumst. Hvað er í gangi? Er hún að hætta með honum?

Fyrir níu mánuðum höfðu þau eytt heilli nótt uppi á fjallstindi undir stjörnubjörtum himni, umlukt myrkri, frosti og snjó – svo ástfangin að þau fundu varla fyrir kuldanum.

Núna stendur hann aleinn í risíbúð í miðbænum, yfirgefinn og efins um allt. Jafntýndur og einmana og strandaglópur á eyðieyju.

(17-8)