Ofsögum sagt

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1981
Flokkur: 

Úr Ofsögum sagt:

Kollur af kolli Þannig gekk þetta nú koll af kolli uppeftir allri götunni. Loks voru öll hús við götuna merkt á þennan hátt. En það varð að sjálfsögðu einungis til þess að þrýstingurinn færðist yfir í næstu götur og á endanum (til að gera mjög langa sögu stutta) kom þar, að ekki var til það hús í borginni sem ekki var auðkennt með samskonar yfirlýsingu. Og fall dreifbýlisins var ekki langt undan. Skiltagerðarmenn mundu ekki aðra eins annatíð. Margir þeirra vottuðu síðar að þeir hefðu haft uppi vissar grunsemdir um einlægnina á bakvið eftirspurnina, en þeir sögðust flestir vera svo vanir ýmsum dillum samtímans, að svona æði væri svosem ekkert fráleitara en hvað annað fannst þeim. Fleygiferð Þar með var málið komið á fleygiferð og það er kunnara en frá þurfi að segja hvernig ástandið varð: Það var einsog mynduð hefðu verið landssamtök um þetta slagorð: GERUM EKKI VIÐ TÖSKUR. Umtal magnast Allan tímann meðan skiltunum var að fjölga fór það að verða æ algengara umræðuefni meðal fólks hversu erfitt væri að fá gert við töskur. Og einsog áður sagði hafði skammdegið nú grúfst yfir þjóðfélagið. Brátt var ekki um að villast: Hér var skammdegismálið komið. Fólk kemur saman Hvarvetna þarsem fólk kom saman var verið að ræða töskumálin. Síðdegisblöðin tóku fjörkipp og ný bættust við. Sjónvarpið gerði dagskrá um málið sem vakti mikla athygli. Þar sást fréttamaður reika um borg og bý. Hann tók vegfarendur tali. Nærmyndir voru sýndar af sárt leiknum töskum og klippt yfir á skiltin: GERUM EKKI VIÐ TÖSKUR. GERUM EKKI VIÐ TÖSKUR. Vítahringur En því meira sem rætt var um málin, þeim mun minni urðu líkurnar á að nokkur fengist til að gera við töskur. Vandamálið var orðið svo risavaxið að enginn lagði í að svo mikið sem ýja að því að hann gæti eftilvill létt á vandanum. Áður hefur verið minnst á viðbrögð Töskuviðgerðarinnar og skósmiða. Þannig myndaðist vítahringur sem varð til þess að loka inni og einangra enn meir en áður þá töskuviðgerðarkunnáttu sem þrátt fyrir allt var fyrir hendi. Landflótti blasir við Ekki er þörf á að tíunda þau áhrif sem þetta ástand hafði á álit landsmanna á sínu eigin velferðarþjóðfélagi. Hvar var velferðin fyrst hún réði ekki einu sinni við að halda töskum landsins í sómasamlegu horfi? Barlómurinn gekk alltaf meira og meira í þá átt, að hér væri ekki búandi. Utanferðir með bilaðar töskur hófust. Þjóðhollir aðilar bregðast við Þegar hér var komið sögu hlutu þjóðhollir aðilar að bregðast við. Elstu menn voru yfirheyrðir og reyndust muna annað ástand. Ekki rak þá minni til að andúð á töskuviðgerðum hefði verið ríkjandi þáttur í verkmenningu þjóðarinnar. (s. 108-109)