Og svo kom nóttin

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2006
Flokkur: 

Ljóð eftir Þórdísi og myndir eftir Jesse Ball. Bókin kom út í ritröðinni Norrænar bókmenntir (bók nr. 8).

Úr Og svo kom nóttin:

1.

Skógurinn fylltist
af verum sem sungu
með gulnuðum röddum
og sveimuðu
eins og heitur blærinn
yfir hvolfinu
sem fyllti mig gleði
svo ég hallaði mér niður
fann mig leysast upp í friði
og renna hægt í burtu
eins og vatn

------------

9.

Það brakaði í greininni
og hann hagræddi sér betur
dró fæturna upp að sér
og krækti höndunum í kring
með steininn í heitum lófanum

Náttugla eða leðurblaka?

Vonandi verður nóttin
ekki lengri en áður
og vonandi verður suðið
ekki háværara en fyrr
sagði hann
og hugsaði um liðnar nætur

----------

21.

Og hann klemmir saman augun

Við skulum vera hérna uppi
þar til dagar
hverfa síðan ofan í grasið
fyrir neðan

Við skulum haldast í hendur
og vera saman
uns við föllum til jarðar
og deyjum og deyjum
og deyjum