Óp bjöllunnar

Höfundur: 
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1970
Flokkur: 

Úr Ópi bjöllunnar:


Horfði út um gluggann. Á mánaskini baðað land jaðrað skóginum, og dunur árinnar heyrði hann og sá hestinn nálægt skóginum; og ása og bungur ljósar af tunglinu; og hugsaði: en ef væri rigning?
 Hugsunin myndbreytti sviðinu; og tók burt skóginn og setti hraun með laufblautum hríslum, og hver lófi laufs mátti bera sinn dropa; og vellirnir voru gæddir grasi; og fyrir ána kom lækur sem tifaði stundum á steinum, og dýpkaði hljóðið, og dró sig saman í sérstök erindismál og boðsendingar i bugðóttum skorningum með mjúkum bökkum og lyngkvosum og mosadýjum.
Að nema þessar raddir, hugsar hann: heyra hvað þær segja. Þessar raddir sem hann nam en þegar hann reyndi að heyra hvað þær voru að segja viku þær undan, komu aftur þegar hann sótti ekki lengur á. Einsog vofur. En lækurinn bar að honum tóninn alfa, hugvitaðan hátíðnitón sem hélt uppi öðru sem gerðist í þeirri heyrnarvídd meðan rafbylgjur hugarins rituðu myndir.
Regn, hugsaði hann aftur: hann mundi að hann hafði gleymt regni myndarinnar.
Regn í þessu svofellt vakta landslagi. Og hesturinn.

(s. 121-122)