Örlagadansinn

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1993
Flokkur: 


Úr Örlangadansinum: - Já. Við skulum fá okkur kaffi og ég segi þér allt sem ég veit. Það er að sjálfsögðu trúnaðarmál, en mér finnst rétt að þú vitir allt sem við vitum. Það ert þú sem ert í lífshættu, ef einhver er.

 Það fór hrollur um Hörpu.

 - Ég get ekki gleymt aðkomunni í íbúðinni í morgun. Það var svo hræðilegt.

 - Ég veit. En nú er lögregluvörður um hana svo að enginn kemst óséður inn.

 - Það er ótrúlegt að hann komi aftur.

 - Hver veit, ef til vill hefur hann ekki fundið allt sem hann leitaði að.

 Ágústa hellti kaffi í bolla handa þeim.

 - Það sem ég veit um þetta svokallaða fuglafélag er ekki margt. Flest eru það sögusagnir, sem ganga manna á milli, en svo virðist sem enginn sé viss hvernig það varð til eða hverjir eru í því. En það er álitið að fyrir löngu hafi nokkrir skólastrákar stofnað með sér einhvers konar leynifélag, sem þeir kölluðu “Fuglafélagið”. Við vitum ekki hve margir þeir voru, hvort þetta voru bekkjarbræður eða breiðari hópur. Enn hefur ekki verið hægt að tengja það neinum sérstökum. Forsprakkinn er kallaður “Örn,” hann virðist ráða öllu og stjórna meðlimunum eins og fjarstýrðum leikföngum. Það er erfitt að tengja menn, en það hljóta að vera menn úr ólíkum þjóðfélagshópum í þessu fáránlega félagi. Við höldum að þeir hjálpi hver öðrum að komast áfram. Grunur hefur verið um fjárdrátt, skattsvik og ýmislegt annað, sem ef til vill má rekja til þeirra félaga, þó að aldrei hafi neitt sannast. Það er svo undarlegt að í gegnum tíðina hefur aldrei tekist að sanna eitt eða neitt. Ef grunsamlegir menn, lögbrjótar, hafa verið spurðir um þennan félagsskap, setja þeir upp hundshaus og þykjast ekkert vita. Það virðist vera ótrúleg samstaða. Okkur grunar líka að margir óupplýstir glæpir eigi rætur sínar að rekja þangað. Þeir útvega hver öðrum fjarvistarsannanir, sem við getum ekki hrakið. Það eru þrjú ár síðan okkur fór að gruna að þessir kumpánar smygluðu eiturlyfjum til landsins, en okkur hefur ekki tekist að sanna eitt eða neitt. Þetta hræðilega morð er það fyrsta sem við virkilega getum tengt fuglunum. En þú verður að athuga að það eru einungis þín orð fyrir því og fyrir því sem Albert sagði á dánarstundinni. Ég held að hver og einn meðlimur hafi nafn eins og Örninn. Mig grunar að Albert hafi verið “Storkurinn”.(s. 80-81)