Ormagull

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
1994
Flokkur: 

Um Ormagull:

Birtist í bókinni Ormagull: verðlaunasögur handa allri fjölskyldunni. Fjórtán bestu smásögurnar sem bárust í samkeppni Barnabókaráðsins í tilefni af ári fjölskyldunnar og lýðveldisafmælinu.

Úr Ormagulli:

Inni í herberginu sínu lét Hulda orminn síga varlega niður í glerkrukkuna með fimmtíukallinum. Hún lagðist strax ofan á peninginn og iðaði þar um stund. Kannski var hann að gera eitthvað sem fékk gullið til að vaxa. Hulda skrúfaði lokið á krukkuna, en þá datt henni í hug að ormurinn gæti kafnað ef það væri ekki loftgat á lokinu. Hún skrúfaði lokið af, fór með það fram í eldhús og bjó til nokkur lítil göt á það með hamri og nagla sem hún fann í áhaldaskúffunni. Síðan setti hún lokið aftur á krukkuna. Ormurinn hringaði sig utan um gullpeninginn og virtist líða vel.
Hulda heyrði umgang frammi. Sennilega var mamma að koma heim. Hún flýtti sér að koma krukkunni fyrir undir rúmi. Þetta var leyndarmál sem enginn mátti komast að.
Hulda fór snemma í háttinn um kvöldið, en hún átti erfitt með að sofna. Það eina sem komst að í huga hennar var ormurinn sem lá á gullinu undir rúminu hennar. Hún laumaðist til að ná í krukkuna og skoða það sem í henni var. Henni sýndist fimmtíukallinn hafa stækkað örlítið. Svo setti hún krukkuna aftur lengst undir rúmið.
Um nóttina dreymdi Huldu að ormurinn var orðinn svo stór að það var ekki pláss fyrir hann lengur í krukkunni. Hann sprengdi krukkuna utan af sér og hún brotnaði í þúsund mola. Gullpeningurinn var líka orðinn risastór. Ormurinn lagðist ofan á hann á miðju gólfi og svo stækkuðu þeir og stækkuðu, ormurinn og gullpeningurinn, með ógnarhraða.

(s. 9)