Ósk

Ósk eftir Pál Kristinn Pálsson
Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2016
Flokkur: 

Um Ósk

Árið 1994. Hann er á miðjum fertugsaldri þegar hann greinist óvænt með alvarlegan sjúkdóm. Farsæll fatakaupmaður, kvæntur og faðir tveggja ungra barna stendur skyndilega frammi fyrir þeim ískalda möguleika að senn muni dagar hans taldir.

Hann hefur frá barnæsku búið yfir djúpstæðu leyndarmáli um sjálfan sig. Við að horfast í augu við dauðann fyllist hann knýjandi þörf fyrir að allur sannleikurinn um lífsglímu hans komi fram í dagsljósið. Og í kapphlaupi við dauðann hefst hann handa við að skrifa sín eigin eftirmæli …

Úr Ósk

Ég er ómögulegur strákur. Ég skil ekki af hverju Guð lætur mig vera eins og ég er. Hvað vakir fyrir Honum með því að úthluta mér þessum uppvaxtarskilyrðum?

Við búum í hverfi sem er að byggjast upp á miklum hraða. Okkar hús er raunar tilbúið, hvítmálað tvílyft steinhús með rauðu bárujárnsþaki. Við erum á efri hæðinni; þar er íbúðin stærri því niðri eru geymslur og þvottahús með góðu snúruplássi bæði fyrir okkur og Knút togaraskipstjóra, sem býr einn á jarðhæðinni, enda er hann víst nýorðinn ekkill, og einkadóttirin gift og flutt að heiman fyrir löngu. Garðurinn sem nær allan hringinn í kringum húsið er að komast í þokkalegt horf; mamma búin að planta rifsberjatrjám meðfram hvítu grindverkinu og á miðri grasflötinni götumegin hefur pabbi reist myndarlega flaggstöng, að sjálfsögðu hvíta með gylltum hún. Knútur skipstjóri skiptir sér ekkert af garðinum, þá sjaldan hann er í landi hangir hann bara inni hjá sér og spilar melankólskar djassplötur eða rúntar um bæinn í leigubílum með ákavítiskryppling faldan í buxnastrengnum.

Hverfið er fullt af krökkum. Þeir leika sér úti um allt; á holóttum malargötunum, í görðunum, húsbyggingunum — en helsta leiksvæðið er þó utan hverfisins í enn að mestu óbyggðri hlíð dalsins; þar er fjöldi kartöflu- og kálgarða, þar er lítill fótboltavöllur, moldarflag og misstór mörk með götóttum fiskinetum, þar er heilmikið hænsnabú, þar er þyrping dúfnakofa, en utarlega í hlíðinni er verið að reisa risastórt sjúkrahús. Búið er að steypa grunninn og kjallarann, sem er að hluta til neðanjarðar, þar ku vera ævintýralegt völundarhús hef ég heyrt haft eftir stóru strákunum sem stelast þangað til að reykja, langir gangar og ótal herbergi, sum lítil og þröng, önnur gímöld – og eins og nærri má geta er okkur krökkunum alveg stranglega bannað að fara þangað inn.

(55-6)