Óþekkta konan

Útgefandi: 
Staður: 
Reykjavík
Ár: 
2004
Flokkur: 

Úr Óþekkta konan:

 - Ég má ekkert vera að því að líta á þetta, það verður að bíða. Þið komið með mér uppí Grafarvog. Það er nýtt mál handa ykkur þar. Ung kona fannst látin í húsagarði. Enginn veit hver hún er, hún er nakin og skorin á púls á báðum höndum.
 Við Baddi litum hvort á annað. Það var ég sem ræskti mig.
 - Ég held að við verðum að komast til botns í þessu með gömlu konuna. Það er ekkert eðlilegt að finnast látinn með alla þessa fúlgu undir dýnunni.
 Birgir hvessti á mig augun.
 - Það liggur ekkert á. Þið eruð væntanlega búin að innsigla íbúðina og ég vil fá ykkur í þessa óþekktu stúlku. Það er kannski ekki ofverkið ykkar að taka við nýju máli þótt þið séuð að rannsaka lát gamallar konu sem sofnaði í rúminu sínu.
 Ég stundi en Baddi sagði ekkert. Það var langbest að láta sem ekkert væri þegar Birgir var í skapi sem þessu. Ég fann fyrir garnagauli en bjóst ekki við að fá tækifæri til að fóðra magann á næstunni. Ég vonaði líka að Sandra myndi halda í sér barninu eitthvað lengur svo ég stæði ekki ein uppi með þessi lík.
 Við Baddi eltum Birgi út eins og hlýðnir hvolpar. Þegjandi settumst við inn í lögreglubíl og hinn geðgóði yfirmaður okkar ók af stað. Hann virtist vera að jafna sig og fljótlega fór hann að tala.
 - Það hringdi maður klukkan tíu í morgun og tilkynnti þennan óskemmtilega fund. Við sendum auðvitað menn á staðinn og þeir bíða okkar nú.
 - Hvar er allt hitt rannsóknarliðið?
 Það urraði í Birgi.
 - Það kom sprengjuhótun í Leifsstöð, auðvitað eitt helvítis gabbið, en ég varð að senda alla menn þangað, nema ykkur sem voruð að skafa upp líkamsleifar gömlu konunnar. Ég reyndi að ná í ykkur líka, en þið svöruðuð auðvitað ekki.
 Mér rann í skap. Hann þurfti ekki að halda að við hefðum einhverja ánægju af starfinu þegar svona stóð á og sjálfur hafði hann sent okkur í þetta óskemmtilega verk.

(s. 14-15)